Til marks um mikilvægi símenntunar og skráningu hennar, er ástundun og skráning símenntunar skylda í mörgum löndum Evrópu. Í sumum landanna er slík skráning forsenda launahækkunar og í öðrum er skráning forsenda endurnýjunar og viðhalds lækningaleyfis.
Til að athuga mikilvægi skráningar á símenntun meðal starfandi lækna á Íslandi gerði Læknafélagið skoðanakönnun árin 2018-2019. Þar voru 73% svarenda sammála því að koma þyrfti á skráningu á símenntun lækna. Einnig töldu 68% að LÍ ætti að setja lágmarksviðmið og annast skráninguna.
Í framhaldi var ályktun um símenntun lækna samþykkt á aðalfundi Læknafélags Íslands 2019.
Símenntun er stöðugt og viðvarandi ferli í framhaldi af grunn- og framhaldsnámi lækna. Símenntun stuðlar að því að viðhalda og auka þekkingu, ásamt því að efla færni og fagleg vinnubrögð. Markviss símenntun lækna er mikilvæg í fagi sem er í stöðugri þróun, til að leitast við að veita skjólstæðingunum sem besta þjónustu.
Sérhver læknir ber ábyrgð á að meta þörf fyrir símenntun með hliðsjón af starfi sínu og þróun innan sérgreinar sinnar. Læknir ber jafnframt ábyrgð á viðeigandi ástundun símenntunar.
Læknafélag Íslands hefur sett á fót rafræna skráningarkerfið Mínervu, þar sem læknar geta haldið utan um símenntun sína og öll tengd gögn. Aðgangur að Mínervu er á innri vef Læknafélagsins.
Félagar í LÍ hafa aðgang að Mínervu. Valkvætt er að skrá símenntun, en Læknafélag Íslands hvetur alla lækna til að nýta þennan möguleika þar sem um er að ræða verðmætar upplýsingar í umhverfi þar sem tækni, þekking og færnikröfur breytast hratt, samhliða auknum fagkröfum, eftirliti og kvörtunum skjólstæðinga til yfirvalda.
Skráning símenntunar hvers læknis er ekki aðgengileg öðrum.