2. desember 2016
Reglugerð Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna (FOSL)
1. gr.
Heiti, varnarþing og heimili
Fjölskyldu- og styrktarsjóður lækna, hér eftir nefndur FOSL, er stofnaður með annars vegar kjarasamningi Læknafélags Íslands vegna sjúkrahúslækna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala dags. 2. júlí 2001 og hins vegar með úrskurði kjaranefndar vegna heilsugæslulækna dags. 4. desember 2001.
Heimili og varnarþing sjóðsins er á starfstöð Læknafélags Íslands.
2. gr.
Hlutverk
Hlutverk FOSL er að taka við iðgjöldum launagreiðanda og ávaxta þau. Sjóðnum skal varið til þess að styrkja sjóðfélaga með fé og koma þannig m.a. til móts við:
a) tekjutap sjóðfélaga vegna ólaunaðrar fjarveru frá læknisstörfum vegna veikinda sjóðfélaga eða náinna vandamanna hans eða vegna annarra sérstakra persónulegra aðstæðna.
b) óbætt áföll vegna óvæntra starfsloka eða annarra óvæntra áfalla sjóðfélaga.
c) útgjöld sjóðfélaga vegna ýmiss konar heilbrigðisþjónustu.
d) útgjöld vegna andláts sjóðfélaga.
e) að veita sjóðfélögum sem eignast barn, taka barn til ættleiðingar eða í varanlegt fóstur sérstakan fæðingarstyrk.
Sjóðurinn getur einnig varið fé til aðila sem vinna að bættu heilsufari lækna.
Hlutverki sínu hyggst sjóðurinn ná með því að hafa gagnsæjar og skýrar reglur þannig að gætt sé jafnræðis sjóðfélaga og um leið skilvirkni og hagkvæmni í rekstri sjóðsins. Sjóðssjórn getur þó við sérstakar aðstæður tekið matskenndar ákvarðanir með hliðsjón af persónulegum aðstæðum sjóðfélaga.
3. gr.
Sjóðsaðild
Sjóðsaðild eiga læknar sem:
a) starfa samkvæmt kjarasamningi Læknafélags Íslands.
b) starfa á sjálfseignarstofnunum eða öðrum stofnunum, hjá félögum eða fyrirtækjum skv. starfskjarasamningum er taka mið af kjarasamningi lækna á hverjum tíma og launagreiðandi þeirra greiðir iðgjöld til sjóðsins.
c) starfa sjálfstætt og óska eftir aðild að sjóðnum.
Sjóðsaðild byggist á því að greitt sé kjarasamningsbundið styrktarsjóðsframlag. Umsamið framlag sjálfstætt starfandi lækna, sem óska eftir aðild að sjóðnum, er hið sama og greinir í kjarasamningi lækna hverju sinni og skal það greitt af því reiknaða endurgjaldi ríkisskattstjóra sem viðkomandi læknir greiðir. .
Til að eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum skal sjóðsfélagi vera skuldlaus félagi í Læknafélagi Íslands eða greiða til félagsins gjald samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Réttur sjóðfélaga til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna sjóðfélaga í samtals sex mánuði og þar af þrjá mánuði samfellt áður en atvik, sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum, átti sér stað. Sjóðstjórn getur vikið frá þessu skilyrði við sérstakar aðstæður sjóðfélaga.
Réttur til framlags úr sjóðnum fellur niður þegar sjóðfélagi hættir störfum og iðgjöld hætta að berast sjóðnum. Fyrrverandi sjóðfélagar njóta því ekki réttar til styrkja úr sjóðnum nema slíkt sé tekið sérstaklega fram í úthlutunarreglum. Sjóðstjórn er þó heimilt í sérstökum tilvikum að veita lækni styrk úr sjóðnum allt að fimm árum eftir að læknir hætti störfum og iðgjöld bárust sjóðnum vegna starfa hans. Um útfararstyrki skal gilda að þá er heimilt að greiða í fimm ár eftir að sjóðsaðild lauk.
Læknir telst segja sig úr FOSL ef kjarasamningsbundið eða umsamið sjóðsframlag hættir að berast sjóðnum. Tímabil fyrri sjóðsaðildar raknar við þegar sjóðsframlög hafa borist á ný í þrjá mánuði.
Réttindi til styrkja skulu að jafnaði vera bundin því starfshlutfalli, sem læknir gegnir á þeim tíma sem umsókn kemur fram, nema sérstakar aðstæður mæli gegn þeirri niðurstöðu að mati sjóðstjórnar.
Sjóðstjórn getur hafnað umsókn sjóðfélaga, hafi hann notið framlags úr sjóðnum á síðustu tólf mánuðum fyrir dagsetningu nýrrar umsóknar til sjóðsins.
4. gr.
Sjóðsstjórn
Stjórn FOSL skal skipuð tveimur fulltrúum sjúkrahúslækna og einum fulltrúa heilsugæslulækna og einum lækni til vara, sem allir skulu skipaðir af stjórn Læknafélags Íslands til fjögurra ára í senn og skal formaður skipaður sérstaklega. Stjórnin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.
Um hæfi stjórnarmanna til meðferðar einstakra mála fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga á hverjum tíma. Reynist stjórnarmaður vanhæfur til meðferðar einstaks máls skal stjórn Læknafélags Íslands tilnefna staðgengil hans til meðferðar málsins.
Stjórnarmenn eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu um allt sem þeir komast að í störfum sínum í sjóðsstjórninni. Trúnaðar- og þagnarskyldan helst þó stjórnarmaður hætti í stjórninni.
Stjórnarsamþykkt er lögleg ef a.m.k. tveir stjórnarmanna greiða henni atkvæði. Sjóðstjórn ber að rökstyðja niðurstöðu sína, ef eftir því er kallað af hálfu umsækjanda. Niðurstaða stjórnar er endanleg afgreiðsla máls.
Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Umsóknir skulu afgreiddar innan fjögurra vikna frá því að þær berast skrifstofu sjóðsins.
5. gr.
Úthlutunarreglur
Sjóðsstjórn setur almennar úthlutunarreglur um styrkveitingar úr FOSL. Úthlutunarreglur skulu endurskoðaðar reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Úthlutunarreglur FOSL skulu birtar á innri og ytri vef heimasíðu Læknafélags Íslands og reglulega kynntar sjóðfélögum.
Styrkupphæðir skal endurskoða árlega í desember ár hvert með gildistöku 1. janúar á komandi ári.
Falli umsókn beint undir almennar úthlutunarreglur skulu starfsmenn sjóðsins afgreiða hana bréflega í umboði sjóðstjórnar. Á hverjum stjórnarfundi skal stjórn fá samantekt á fjölda og sundurliðun umsókna sem afgreiddar hafa verið með þessum hætti frá síðasta stjórnarfundi.
Sé umsókn, sem fellur beint undir almennar úthlutunarreglur, hafnað getur umsækjandi vísað umsókninni til endurskoðunar stjórnar.
Berist umsókn sem felur í sér mat skal stjórn taka ákvörðun um hana. Stjórn er heimilt að afgreiða slíka umsókn utan funda. Færa skal ákvörðunina til bókar á næsta stjórnarfundi. Starfsmenn tilkynna ákvörðun stjórnar vegna þessara umsókna.
Starfsmenn LÍ sem annast afgreiðslu umsókna til FOSL skulu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að um umsækjendur um styrki. Þeir skulu undirrita sérstaka yfirlýsingu um trúnaðar og þagnarskyldu.
6. gr.
Fjármál
Allur kostnaður af starfsemi FOSL er greiddur af fjármunum hans. . Stjórn FOSL hefur umsjón með fjármunum sjóðsins og ávöxtun hans.
Læknafélag Íslands annast samkvæmt sérstökum samningi við stjórn FOSL, daglega afgreiðslu sjóðsins, undirbúning stjórnarfunda, færslu bókhalds sjóðsins, undirbúning þess í hendur endurskoðanda og uppgjör opinberra gjalda vegna styrkja sem sjóðurinn veitir sjóðfélögum.
Reikningsár FOSL er almanaksárið.
Löggiltir endurskoðendur Læknafélags Íslands endurskoða reikninga sjóðsins. Skal endurskoðandi senda stjórn sjóðsins reikningana, með áritun sinni og athugasemdum. Reikningarnir skulu jafnframt, ásamt skýrslu stjórnar, lagðir fram til kynningar og samþykktar á aðalfundi Læknafélags Íslands.
7. gr.
Um afgreiðslu umsókna og úthlutun styrkja
Sækja þarf um framlög og styrki til FOSL á sérstöku umsóknareyðublaði sem er aðgengilegt á heimasíðu Læknafélags Íslands.
Nauðsynleg gögn skulu fylgja umsókn í frumritum eða staðfestum afritum, s.s. læknisvottorð, vottorð launagreiðanda eða verkkaupa eftir atvikum og önnur vottorð er varða umsóknina. Reikningar, sem framvísað er, skulu bera með sér nafn umsækjanda. Með umsókn um fæðingarstyrk verður sjóðsfélagi að skila til sjóðsins staðfestingu á fæðingu barns, ættleiðingu eða þess að barn sé tekið í varanlegt fóstur.. Með umsókn um styrk vegna útfarar skal fylgja dánarvottorð sjóðfélaga eða fyrrum sjóðfélaga og staðfest ljósrit af reikningi fyrir útför.
Stjórn sjóðsins getur óskað frekari gagna til upplýsinga um málsatvik hjá umsækjanda, telji hún þörf á því.
8. gr.
Slit
Liggi fyrir lögmæt ákvörðun um að leggja sjóðinn niður skal stjórn Læknafélags Íslands ákveða ráðstöfun eigna sjóðsins með almenna hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.