Evrópskt samstarf

Læknafélag Íslands varð aðili að fastanefnd lækna í Brussel, Comité Permanent des Médecins Européens (CPME) um miðjan 10. áratug síðustu aldar. CPME eru í raun Evrópusamtök læknafélaga og að CPME eiga aðild stéttarfélög lækna í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stofnun CPME má rekja allt aftur til ársins 1959 um það leyti sem Rómarsáttmálinn, stofnsáttmáli Evrópusambandsins, var gerður. Skrifstofa CPME hefur verið í Brussel frá árinu 1992 en áður flakkaði hún á milli Evrópulandanna, allt eftir því frá hvaða landi forseti samtakanna var.  Það er mál manna að mun betur hafi gengið að ná eyrum ráðamanna ESB eftir að skrifstofan var flutt  til Brussel.

CPME er helsti þrýstihópur lækna gagnvart framkvæmdastjórninni í Brussel. Samtökin móta sér pólitíska stefnu í málefnum lækna í Evrópu svo sem varðandi lagaumhverfi og vinnumarkaðsmál. CPME hefur áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum innan ESB en slíkar ákvarðanir teygja anga sína til Íslands vegna EES samningsins.

Katrín Fjeldsted, heimilislæknir, hefur verið ötull fulltrúi LÍ í samtökunum allt frá frá árinu 1999. Hún var innri endurskoðandi samtakanna árin 2005-2006, einn af fjórum varaformönnum 2006-2009, gjaldkeri árin 2010-2012 og loks formaður samtakanna 2013-2015. Katrín var fyrsta konan til að gegna formennsku í CPME. 

 

Heimasíða CPME