Frá Orðanefnd - 59
Pistlaskrif Orðanefndar L.Í. hafa því miður legið niðri um talsverðan tíma. Meginorsökin er sú að undanfarið ár hefur nefndin unnið að nokkuð yfirgripsmiklu verkefni, undirbúningi og útgáfu á fjórða heftinu í ritröð sem nefnist „Orðasafn í líffærafræði“. Fyrsta heftið kom út árið 2013 og geymir heiti í stoðkerfinu, annað heftið árið 2016 með heitum á helstu líffærum mannsins, þriðja heftið árið 2017 og geymir heiti í æðakerfinu og loks kom út fjórða heftið haustið 2019 og hefur það að geyma heiti í taugakerfinu.
Á árinu 2019 voru tekin saman um það bil 500 heiti á líffærafræðilegum fyrirbærum í taugakerfinu, svipaður fjöldi og í hverju af fyrri heftunum. Íslensku líffæraheitin og þau latnesku komu úr Íðorðasafni lækna sem varðveitt er í heild sinni í Íðorðabankanum. Öll þessi heiti voru endurskoðuð og samræmd, tilsvarandi enskum heitum var bætt við og sömuleiðis skilgreiningum eða lýsingum á öllum fyrirbærunum, en þær hafði skort í safnið.