Á orðanefndarfundi 26. janúar 2017 voru tekin til yfirferðar tæplega 30 samsett, læknisfræðileg heiti sem enda á viðskeytinu „stasis“. Viðskeytið sjálft hefur sérstaka færslu í Íðorðasafni lækna og eru þar birtar sjö mögulegar íslenskar þýðingar á því: -stífla, -staða, -hefting, -teppa, -tregða, stöðnun, -stöðvun. Erfitt er því að setja upp eina, algilda skilgreiningu á fyrirbærunum sem tengjast þessu heiti. Í erlendum læknisfræðiorðabókum er gjarnan vísað í kyrrstöðu, stöðvun, hindrun eða minnkun í flæði eða rennsli blóðs eða annarra líkamsvökva í líkamanum. Þessum sjö mismunandi möguleikum á íslenskri þýðingu á viðskeytinu er þess vegna ætlað að gefa færi á viðeigandi þýðingu í hverju samsettu heiti.
Þetta verður best útskýrt með því að taka nokkur dæmi (í stafrófsröð) úr Íðorðasafni lækna í Orðabankanum. Heitið „bacteriostasis“ er þýtt með íslenska orðinu „bakteríuhefting“ og fær skilgreininguna: Stöðvun eða hefting bakteríuvaxtar. Síðan koma hér ýmis fræðiheiti af latneskum eða grískum uppruna með íslenskum þýðingum og skilgreiningum orðasafnsins, en þau eru auðvitað mismikið í daglegri notkun hjá heilbrigðisstarfsmönnum: „cholestasis“: gallteppa, gallstífla (Hindrun á flæði galls um gallveg, allt frá lifur og út í meltingarveg.), „enterostasis“: þarmatregða, garnatregða (Truflun á flutningi garnainnihalds eftir leið sinni um garnir.), „hemostasis“: blæðingarstöðvun (Líffræðileg blóðstorknun eða tilbúin stöðvun blæðingar úr æðum.), „hemostasis“: blóðstaða, blóðrennslisstöðvun (Blóðflæðitruflun (tregða, stífla) sem leiðir til blóðsöfnunar í vefjum.), „lymphostasis“: vessastöðnun, sogæðateppa, vessateppa (Vísar í flæðitruflun (teppu) í vessaæðum sem leiðir til vessasöfnunar í vefjum), „phlebostasis“: bláæðastöðnun, bláæðarennslistregða (Stöðvun eða mikil hæging á blóðrennsli í bláæðum.), „proctostasis“: endaþarmsstífla, endaþarmsteppa, (Uppsöfnun þéttra hægða í endaþarmi og tregða á tæmingu þarmsins.), „pulmonary hypostasis“: blóðstöðnun í lungum, blóðsig í lungum, blóðstaða í lungum, (Blóðsöfnun eða blóðfylla í neðri hlutum lungna.), „urostasis“: þvagteppa (Tregða eða stöðvun í rennsli þvags um þvagveg).