Á vegum félagsins starfar Samskipta- og jafnréttisnefnd LÍ og er hlutverk hennar að stuðla að jákvæðum samskiptum og jafnrétti með því að fræða félagsmenn og tryggja að vinnustaðir lækna hafi viðeigandi viðbragðsáætlanir og úrræði gegn t.d. áreitni, einelti, ofbeldi og misrétti. Nefndin tekur við erindum frá félagsmönnum er varða t.d. jafnréttismál, kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi eða einelti og kemur þeim í farveg. Nefndin hefur ekki úrskurðarvald en getur vísað málum áfram til Siðanefndar LÍ og lögfræðiþjónustu LÍ. Erindum beint til nefndarinnar skal senda framkvæmdastjóra LÍ eða fulltrúum nefndarinnar.
Nefndina skipa:
Ólöf Sara Árnadóttir, formaður
Anna Björnsdóttir
Brynjar Viðarsson
Gunnar Þór Geirsson
Lilja Sigrún Jónsdóttir
Michael Clausen
Steinn Thoroddsen
Stella Rún Guðmundsdóttir
Hvernig líður þér í vinnunni?
Það er mikilvægt að starfsumhverfi sé þannig að starfsfólki líði vel í vinnu. Gott starfsumhverfi stuðlar að aukinni velliðan á vinnustað og að góðum starfsanda. Á góðum vinnustað á að ríkja gagnkvæm virðing, traust, umburðarlyndi og jafnræði.
Á vef VIRK má finna frábær samskiptaráð fyrir starfsfólk og vinnustaði, sjá nánar hér.
Það getur gerst á vinnustað að starfsmaður upplifi óæskileg hegðun og/eða áreiti frá samstarfsfólki og þá er mikilvægt að vita hvernig sá sem verður fyrir slíku getur brugðist við.
Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
Einelti á vinnustað
Einelti á vinnustað er skilgreint sem tíðar og neikvæðar athafnir sem beitt er af einum einstaklingi eða fleiri gegn vinnufélaga sem á erfitt með að verja sig. Þessar athafnir valda þeim einstaklingi sem fyrir þeim verður mikilli vanlíðan og grafa undan sjálfstrausti hans.
Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Jafnréttisstefna LÍ
Jafnrétti er hornsteinn lýðræðis og réttláts samfélags þar sem víðsýni og virðing er í hávegum höfð. Læknafélag Íslands (LÍ) er opið öllum læknum og það starfar fyrir alla félagsmenn. Innan LÍ skal ríkja jafnrétti og gagnkvæm virðing meðal félagsmanna og skulu allir njóta sanngirni og jafnra tækifæra. Hjá LÍ er lögð er áhersla á að skapa starfsumhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, heilindum, sanngirni og jafnrétti.