Lög LÍ

Lögin voru samþykkt á aukaaðalfundi LÍ 25. nóvember 1994. Lögunum hefur verið breytt 1999, 2000, 2001, 2002, 2003,  2004, 2007, 2009, 2011 þegar viðauki við lög LÍ var sameinaður lögunum auk þess sem nokkrar breytingar voru gerðar á einstökum greinum laganna, 2014 og 2016. Á aðalfundi 2017 voru gerðar skipulagsbreytingar á LÍ með tilheyrandi lagabreytingum. Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum LÍ á aðalfundi 2018, 2021, 2022 og 2023. 

Eftir breytingar sem gerðar
voru á aðalfundi LÍ
20. október 2023.

 

I. KAFLI: Heiti félagsins, heimili og tilgangur.

1. gr. Heiti félagsins, heimili og varnarþing.

Félagið heitir Læknafélag Íslands, skammstafað LÍ.

Lögheimili þess og varnarþing er í Kópavogi.


2. gr. 
Tilgangur.

Tilgangur félagsins er:
1.   Að efla hag og sóma hinnar íslensku læknastéttar og auka kynni og stéttarþroska félagsmanna.
2.   Að standa vörð um sjálfstæði læknastéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna.
3.   Að stuðla að aukinni menntun lækna og glæða áhuga þeirra á því, er að starfi þeirra lýtur.
4.   Að efla samvinnu lækna um allt, sem horfir til framfara í heilbrigðismálum.
5.   Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi lækna að sameiginlegum hagsmunamálum.
6.   Að beita sér fyrir bættu heilsufari landsmanna og vinna að stefnumótun í heilbrigðismálum.


II. KAFLI: Aðild að félaginu.

3. gr. Aðildarfélög, einstaklingsaðild og aukaaðild.

LÍ er heildarsamtök lækna. Félags­menn velja sér aðildarfélag innan LÍ eða velja einstaklingsaðild. Félagsmaður í aðildarfélagi innan LÍ skal ávallt vera félagsmaður í LÍ og greiða þangað félagsgjald.

Aðildarfélög LÍ eru:

  1. Félag almennra lækna (FAL).
  2. Læknafélag Reykjavíkur (LR).
  3. Félag íslenskra heimilislækna (FÍH).
  4. Félag sjúkrahúslækna (FSL).

Félagsmaður getur valið að vera í tveimur aðildarfélögum og skipt atkvæðisrétti sínum á aðalfundi milli þeirra, sbr. 6. gr.

Félagsmaður sem velur einstaklingsaðild hefur ekki kosningarétt á aðalfundi LÍ en hefur þar málfrelsi og tillögurétt eins og aðrir félagsmenn sem sækja aðalfund og ekki eru fulltrúar aðildarfélags síns á aðalfundinum. 

Allir félagsmenn sem greiða a.m.k. hálft árgjald til LÍ fá áskrift að Læknablaðinu, eiga kosningarétt í formannskosningum LÍ, eru kjörgengir til formanns LÍ, eru kjörgengir sem fulltrúar aðildarfélags síns á aðalfundi LÍ, enda séu þeir í aðildarfélagi og eiga rétt til setu í nefndum og ráðum LÍ.

Aukaaðild að LÍ geta fengið læknanemar, sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis. Félagsmenn Öldungadeildar LÍ, sem hættir eru störfum, teljast einnig aukaaðilar að LÍ. 

Aukaaðild að LÍ fylgja engin önnur réttindi en þau að geta sótt fundi LÍ, þ.á m. aðalfundi, með málfrelsi og tillögurétti. Félagsmenn Öldungadeildar LÍ halda rétti þeim í Orlofssjóði LÍ, sem þeir höfðu við starfslok.

Aðalfundur LÍ ákveður hvort og þá hvaða árgjald aukaaðilar að LÍ skuli greiða, ár hvert, samanber 11.gr. og hvort áskrift að Læknablaðinu sé innifalin í því árgjaldi. 

LÍ heldur skrá yfir félags­menn sína þar sem fram kemur hvaða aðildarfélag/félög þeir hafa valið, hvort þeir teljist einstaklingsaðilar eða njóti aukaaðildar.


4. gr. 
Heiðursfélagar.

Stjórn LÍ getur valið heiðursfélaga úr hópi lækna. Val heiðursfélaga skal vera einróma ákvörðun stjórnar og skal tilkynna það á aðalfundi.

Heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld til LÍ en njóta allra sömu réttinda og greiðandi félagsmenn. 


III. KAFLI: Um aðalfund.

5. gr. Aðalfundur – aukaaðalfundur - félagsfundur.

Aðalfundur fer með æðsta vald í mál­efn­um félagsins.

Aðalfund skal halda eigi síðar en í nóvember ár hvert. Aðalfund skal að jafnaði halda þriðja hvert ár utan höfuð­borgar­svæð­isins. Stjórnin getur kvatt til auka­aðal­fundar, ef hún telur þess þörf. Óski a.m.k. 100 félags­menn eftir að aðalfundarfulltrúar verði kall­að­ir saman til aukaaðalfundar ber stjórn LÍ að verða við því.

Stjórnin boðar til aðalfundar með minnst þriggja mánaða fyrirvara og til aukaaðal­fundar með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Heimilt er að boða til aðalfundar og aukaaðalfundar með rafrænum hætti.

Í gerðabók félagsins skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á aðalfundi og auka­aðal­fundi, einkum allar fundarsamþykktir. Fund­ar­gerðir skulu lesnar upp í fundarlok og bornar undir atkvæði. Fundarstjóra er þó heim­ilt, með samþykki fundarins, að fela fundarritara að ganga síðar frá fundar­gerð­inni. Fundarstjóri og fundarritari undirskrifa síðan fundargerðirnar. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum.

Stjórn LÍ getur boðað til félagsfunda eftir því sem þurfa þykir eða þegar minnst 50 félagsmenn óska þess. Félagsfund skal boða með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Í fundarboði skal geta dagskrár.


6. gr. 
Kjör fulltrúa á aðalfund.

Á aðalfundi eiga sæti fulltrúar aðildar­félaga LÍ og hver fulltrúi með kjörbréf hefur eitt atkvæði.

Kjör fulltrúa og varamanna þeirra fer fram samkvæmt lögum aðildarfélaga, og skulu þau tilkynna kjör þeirra til stjórnar LÍ eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund.

Aðildarfélög kjósa einn fulltrúa á aðalfund fyrir hverja 20 félagsmenn og 11 félagar umfram margfeldi af 20 veita rétt til fulltrúa. Jafnmargir fulltrúar skulu kosnir til vara. Við ákvörðun fjölda félagsmanna hvers aðildarfélags í þessu sambandi skal miða við þá félagsmenn sem greiða árgjald til LÍ miðað við félagatal LÍ tveimur mánuðum fyrir aðalfund.

Sérhver læknir í aðildarfélagi hefur rétt til að kjósa fulltrúa á aðalfund LÍ eftir lögum þess félags. Læknir skal tilkynna stjórn LÍ það bréflega innan tveggja vikna frá boðun aðalfundar, sbr. 3. mgr. 5. gr., vilji hann flytja atkvæði sitt frá einu aðildarfélagi til annars á aðalfundi yfirstandandi árs eða skipta því milli tveggja félaga. Afrit bréfsins skal senda viðkomandi aðildarfélagi og því/þeim aðildarfélagi/félögum þar sem læknirinn ætlar að nýta atkvæðisrétt sinn. Breytingin tekur strax gildi eftir skriflega tilkynningu læknis. Að hámarki tvö aðildarfélög geta farið með atkvæði læknis hverju sinni og skiptist atkvæðið þá að jöfnu milli félaganna.

7. gr. Þátttaka í aðalfundi, útsending gagna o.fl.

Á aðalfundi eiga sæti með málfrelsi, tillögu­rétti og atkvæðisrétti kjörnir fulltrúar sam­kvæmt 6. gr. og formaður LÍ.

Félagsmenn í LÍ sem ekki eru aðalfundarfulltrúar aðildarfélags síns geta setið aðalfund félagsins með málfrelsi og tillögurétti en atkvæðisrétt hafa eingöngu kjörnir fulltrúar aðildarfélaga, sbr. 1. mgr.

Á aðalfundinum eiga sæti aðrir stjórnarmenn LÍ, ábyrgðarmaður Læknablaðsins og fram­kvæmda­stjóri félagsins. Hafa þeir málfrelsi og tillögurétt séu þeir ekki kjörnir fulltrúar aðildarfélags.

Stjórninni er heimilt að bjóða öðrum starfs­mönnum félagsins og gestum fundar­setu og þátttöku í umræðum.

Tillögur til lagabreytinga og ályktana skulu berast stjórn LÍ a.m.k. fjórum vikum fyrir fundinn. Tillögur til lagabreytinga og ályktana skal birta á heimasíðu LÍ a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.

Stjórn LÍ skal senda aðildarfélögum og aðalfundarfulltrúum eftir­talin gögn minnst tveimur vikum fyrir aðal­fund, talið frá og með útsendingardegi þeirra:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Ársreikningar liðins árs.
  3. Tillögur til lagabreytinga.
  4. Tillögur til ályktana.
  5. Önnur mál, sem borist hafa.


8. gr. 
Verkefni aðalfundar.

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi LÍ og ræður fundarstjóri í samráði við formann og fundarritara í hvaða röð fjallað er um einstaka liði:

  1. Ársskýrsla stjórnar LÍ fyrir liðið starfsár.
  2. Endurskoðaðir reikningar LÍ fyrir hið liðna reikningsár, með athuga­semd­um endurskoðanda, eru lagðir fram til samþykktar ásamt endurskoðuðum reikningum Fræðslustofnunar lækna og Orlofssjóðs  LÍ og Fjölskyldu- og styrktarsjóðs.
  3. Áætlun um framkvæmdir og fjárhag LÍ.
  4. Ákvörðun árgjalds félagsmanna fyrir næsta ár.
  5. Lýsing niðurstöðu rafrænnar formannskosningar.
  6. Kjör annars tveggja lækna í Siðanefnd LÍ og varamanns hans til tveggja ára í senn. Annað hvert ár kjör löglærðs þriðja manns í Siðanefnd LÍ og vara­manns hans.
  7. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
  8. Kynning á málefnum:
    a. Læknablaðsins.
    b. Orlofssjóðs LÍ.
    c. Fræðslustofnunar lækna.
    d. Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna.
    e. Siðfræðiráðs.
  9. Afgreiðsla lagabreytinga og ályktana.
  10. Ákveðinn fundarstaður fyrir næsta aðalfund.
  11. Önnur mál, er upp kunna að verða borin.

Aðalfundur er lögmætur, ef hann er löglega boðaður.

Formaður tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Fundarstjóri rannsakar í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið boðað til fundarins og lýsir því síðan, hvort svo sé.

Ályktunartillögur um þau málefni, sem eru á dagskrá fundarins, mega koma fram á fund­inum sjálfum. Aðrar tillögur til álykt­ana, sem ekki hafa verið kynntar skv. 5. mgr. 7. gr., verða því aðeins teknar á dagskrá, að a.m.k. helmingur aðalfundar­fulltrúa samþykki það í atkvæða­greiðslu.

Atkvæðagreiðsla fer eftir því sem fundarstjóri kveður nákvæmar á um. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fund­inum, nema annað sé tekið fram í lögum þessum.

Samþykktir aðalfundar eru bindandi fyrir aðildarfélögin og félagsmenn.


IV. KAFLI: 
Um stjórn félagsins.

9. gr. Skipan og kjör stjórnar.

Stjórn LÍ skipa níu menn. Formaður er kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn í allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna LÍ, sbr. 3. mgr. Hvert aðildarfélag á tvo fulltrúa í stjórn til tveggja ára í senn. Skal formaður aðildarfélagsins vera annar þeirra. Hinn fulltrúinn skal kosinn á aðalfundi aðildarfélagsins eða í allsherjar­atkvæða­greiðslu innan viðkomandi félags.

Stjórn LÍ skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund og kýs sér varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnendur. Formaður LÍ og formenn hvers og eins aðildarfélags eru launaðir starfsmenn LÍ. Á fyrsta eða öðrum fundi stjórnar LÍ eftir aðalfund staðfestir stjórnin ákvörðun fjögurra manna launanefndar, sem aðalfundur kýs, um launakjör formanns LÍ og formanna aðildarfélaganna á komandi starfsári. Framkvæmdastjóri LÍ skal starfa með launanefndinni og verður oddamaður falli atkvæði á jöfnu í nefndinni. Fundargerð þess stjórnarfundar, sem staðfestir ákvörðun launanefndar skal birt á innri vef heimasíðu LÍ strax og hún hefur verið samþykkt. Þá skal ákvörðun launanefndar birt í ársskýrslu stjórnar LÍ til næsta aðalfundar. 

Formaður LÍ er kosinn í allsherjaratkvæða­greiðslu þeirra félagsmanna LÍ sem greiða félagsgjald til LÍ.

Séu fleiri en tveir í framboði til formanns og enginn fær meira en 50% greiddra atkvæða skal kosið aftur milli þeirra tveggja sem efstir eru.

Um leið og stjórn hefur boðað til aðalfundar sbr. 3. mgr. 5. gr., það ár sem kjósa skal formann, skal þriggja manna kjörnefnd, sem stjórn skipar, taka til starfa og auglýsa eftir formannsframbjóðendum. Auglýsing skal birt á heimasíðu LÍ. Framboðsfrestur skal vera 15 dagar og skulu frambjóðendur tilkynna kjörnefnd skriflega um framboð sitt. Einungis greiðandi félagsmenn í LÍ eru kjörgengir til formannskjörs.

Ef enginn hefur við lok framboðsfrests gefið kost á sér til embættis formanns skal kjörnefnd finna a.m.k. einn frambjóðanda til embættisins. Þegar framboð liggja fyrir skal kjörnefnd tilkynna þau og tilkynna nýjan einnar viku framboðsfrest.

Ef einungis einn frambjóðandi er til formanns þegar síðari framboðsfresti lýkur telst viðkomandi sjálfkjörinn í embættið.

Ef tveir eða fleiri frambjóðendur eru í kjöri til embættis formanns að síðari framboðsfresti liðnum efnir kjörnefnd til rafrænnar allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna LÍ.

Kosningarétt hafa þeir sem greiða félagsgjöld til LÍ og eru með félagsgjöld sín í skilum miðað við síðustu mánaðarmót áður en allsherjar­atkvæða­greiðsluna skal halda.

Allsherjaratkvæðagreiðslan skal standa yfir a.m.k. 5 sólarhringa.

Hljóti enginn frambjóðenda til embættis formanns meirihluta greiddra atkvæða skal kjósa aftur, sbr. 3. mgr. þessarar greinar.


10. gr. 
Verksvið stjórnar, allsherjar­atkvæðagreiðslur, vantraust á stjórn.

Stjórn LÍ fer með málefni félagsins milli aðalfunda.

Stjórnin er ábyrg gagnvart aðalfundi.

Verksvið stjórnar er að vera á verði um hag íslensku læknastéttarinnar, félaga hennar og einstaklinga og sjá um fram­kvæmdir á samþykktum aðalfundar. Hún kemur fram út á við sem fulltrúi félagsins, veitir umsagnir og tilnefnir í ráð og nefndir eftir því sem kveðið er á um í lögum og reglum. Hún semur árlega skýrslu um starfsemi LÍ og leggur fyrir aðalfund ásamt reikningum félagsins endur­skoðuðum af löggiltum endur­skoðanda, er stjórnin fær til þess starfs með kjörnum skoðunarmönnum úr hópi félagsmanna. Stjórnin gætir eigna félagsins og ber ábyrgð á vörslu þeirra. Hún skal gera áætlun um fjárhag og starf félags­ins fyrir næsta ár á aðalfundi.

Fundir stjórnar eru lögmætir þegar meiri­hluti er mættur á fundi. Ef atkvæði falla jöfn í atkvæðagreiðslu stjórnar skal atkvæði for­manns LÍ ráða.

Fundargerðir stjórnar skulu samþykktar á stjórnarfundi og undirritaðar af ritara.

Stjórn LÍ ræður fram­kvæmda­stjóra, sem veitir skrifstofu félagsins for­stöðu. Fram­kvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn í samráði við stjórnina. Formaður og fram­kvæmdastjóri mynda framkvæmdastjórn sem sér um daglegan rekstur LÍ í umboði stjórnar.

Óski a.m.k. 100 félagsmenn eftir alls­herjar­atkvæðagreiðslu félagsmanna milli aðalfunda um málefni er varða félagsmenn ber stjórn LÍ að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram innan fjögurra vikna. Meirihlutasamþykkt í slíkri atkvæða­greiðslu er bindandi fyrir stjórn LÍ svo fremi a.m.k. helmingur skráðra félags­manna LÍ hafi tekið þátt í atkvæða­greiðslunni. Meirihluti aðalfundar getur á sama hátt skotið málum til slíkrar alls­herjar­atkvæðagreiðslu. Atkvæðisrétt í þessum allsherjaratkvæðagreiðslum hafa greiðandi félagsmenn LÍ.

Vantraust á stjórnina skal borið fram skrif­lega og undirritað af minnst helmingi kjör­inna fulltrúa á næsta aðalfundi á undan. Stjórn­inni er skylt að boða til auka­aðal­fundar um vantraustið innan tveggja vikna, og skal fundurinn boðaður með fjögurra vikna fyrirvara. Samþykki a.m.k. 2/3 kjör­inna fulltrúa vantraustið, skal fundurinn kjósa bráðabirgðastjórn til næsta reglulegs aðalfundar.


V. KAFLI: 
Um fjármál LÍ.

11. gr. Árgjöld.

Félagsmenn LÍ greiða árgjald til félagsins eftir ákvörðun aðal­fundar félagsins. Við gerð tillögu til aðalfundar um árgjald komandi árs skal stjórn horfa til breytinga á launum lækna frá síðasta aðalfundi. Árgjaldið rennur í félags­sjóð LÍ og er ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Aðalfundur getur ákveðið að ákveðnir hópar félagsmanna greiði ekki fullt félagsgjald. Stjórn LÍ ákveður hverju sinni hvort félagsmaður fullnægi skilyrðum fyrir því að greiða ekki fullt félagsgjald. 

Stjórn LÍ getur veitt félagsmönnum tímabunda undanþágu frá greiðslu félagsgjalds, ár í senn og aldrei lengur en tvö ár samfellt, s.s. vegna heilsubrests eða annarra tímabundinna sambærilegra aðstæðna. Slík undanþága hefur engin áhrif á réttindi læknisins í LÍ.

Félagsmaður LÍ sem er orðinn sjötugur og sem starfar áfram sem læknir skal greiða félagsgjald til LÍ. Aðrir félagsmenn LÍ sem orðnir eru sjötugir geta ákveðið að hætta greiðslu félagsgjalds og teljast þá ekki lengur félagsmenn í aðildarfélagi, njóta hvorki kjörgengis né atkvæðisréttar í LÍ og fá ekki Læknablaðið nema gerast áskrifendur að því sérstaklega.

Nú greiðir gjaldskyldur félagi ekki árgjald sitt til LÍ og er stjórn félagsins þá heimilt að svipta hann félagsréttindum, m.a. kjörgengi og kosningarétti, uns hann hefur greitt gjaldið, hafi hann verið aðvaraður með minnst þriggja mánaða fyrirvara.


12. gr. 
Reikningsár - endurskoðun.

Reikningsár LÍ er almanaksárið.

Með góðum fyrirvara fyrir aðalfund ár hvert skal löggiltur endurskoðandi hafa lokið við samning reiknings fyrir liðið reikningsár í samvinnu við gjaldkera LÍ.


VI. KAFLI: 
Um aðildarfélög.

13. gr. Aðild að aðildarfélögum.

Rétt til inngöngu í aðildarfélag hafa allir þeir, sem eru félagsmenn í LÍ og uppfylla skilyrði laga aðildarfélagsins fyrir aðild að viðkomandi félagi.

14. gr. Lög aðildarfélaga, ársskýrslur o.fl.

Hvert aðildarfélag LÍ setur sér lög og kýs stjórn. Í lögum hvers aðildarfélags skulu ákvæði um það að stjórn félagsins sé kosin á aðalfundi eða í allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna hvers aðildarfélags. Lög aðildarfélaga skulu kveða á um aðild viðkomandi félags að LÍ. Lög aðildar­félaga eru því aðeins gild, að þau hafi verið samþykkt af stjórn LÍ.

Nú óskar aðildarfélag þess, að aðalfundur LÍ taki eitthvert mál til meðferðar, og skal þá tilkynning um það ásamt greinargerð send stjórn LÍ minnst fjórum vikum fyrir þann fund.


VII. KAFLI: 
Um kjaramál, stöður og vinnudeilur.

15. gr. Kjarasamningar.

LÍ sér um gerð kjarasamninga lækna í samráði við aðildarfélög að LÍ, eftir því sem við á hverju sinni. Einstök aðildarfélög að LÍ og Skurðlæknafélag Íslands geta farið með kjarasamninga félaga sinna í samræmi við lög viðkomandi félags og umboð félagsmanna í því félagi. 

Aðeins eitt félag fer með umboð til samn­inga fyrir félagsmann í aðildarfélagi að LÍ.

Tilkynna þarf stjórn LÍ og samningsaðila breytingar á samningsaðild og samnings­umboði a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þess kjarasamnings, sem gildir fyrir félagsmenn viðkomandi félags.

Þeir einir greiða atkvæði um kjarasamning sem taka laun eftir honum.

Til að samræma kaup og kjör lækna skal stjórn LÍ halda kjaramála­fundi. Til slíkra funda skal boða formenn aðildarfélaga, samninganefnda og aðra þá, sem stjórn­in telur ástæðu til.

Kjaramálafund skal að jafnaði boða með tveggja vikna fyrirvara.


16. gr. 
Um stöður.

Stjórn LÍ skal vara lækna og viðkomandi atvinnurekendur við stöðum eða embættum, sem hún telur varhugaverð eða óaðgengileg fyrir lækna.


17. gr. 
Félagsskyldur í vinnudeilum.

Ef LÍ eða aðildarfélag á í deilu við Sjúkratryggingar Íslands, bæjarfélag, ríki eða aðra hliðstæða aðila, getur enginn félagi leyst sig undan þeim skyldum, sem deilan leggur honum á herðar, með því að segja sig úr félögunum.


VIII. KAFLI: Um siðamál.

18. gr. Siðareglur.

LÍ setur félagsmönnum siðareglur, Codex Ethicus. Stjórnir LÍ og aðildarfélaganna skulu hafa eftirlit með og stuðla að því, að siðareglurnar, svo og lög og samþykktir félaganna, séu höfð í heiðri. Stjórnirnar skulu vera læknum til ráðuneytis um siðareglur lækna og um samskipti lækna innbyrðis og þær skulu fjalla um meint brot á Codex Ethicus og á lögum og samþykktum LÍ og aðildarfélaganna.


19. gr. 
Siðanefnd LÍ.

Á vegum félagsins starfar Siðanefnd og er hlutverk hennar að fjalla um siðamál, sem til hennar er vísað.


20. gr. 
Meðferð ágreiningsmála.

Komi upp ágreiningur milli lækna innbyrðis, skal stjórn aðildarfélags leita sátta.

Takist ekki sættir, skal stjórn aðildarfélagsins úrskurða í málinu eða vísa því beint til stjórnar LÍ.

Komi upp ágreiningur milli læknis/lækna og aðildarfélags skal málinu vísað til stjórnar LÍ.

Verði stjórn aðildarfélags vör við misfellur í starfi læknis eða framkomu og málið verður ekki útkljáð innan félagsins, vísar hún málinu til stjórnar LÍ.

Stjórn LÍ úrskurðar í þeim málum, sem til hennar er beint og ekki er vísað til meðferðar og úrskurðar Siðanefndar. Skal stjórnin afgreiða þau mál með eins skjótum hætti og kostur er hverju sinni.


21. gr. 
Mál sem Siðanefnd tekur til meðferðar.

Siðanefnd LÍ tekur til umfjöllunar og úrskurðar, eftir því sem við á:

  1. Erindi sem stjórn LÍ kann að vísa til nefndarinnar vegna ágreinings skv. 20. gr. og um kvartanir vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum LÍ eða Siðareglum LÍ (Codex Ethicus), enda hafi stjórn LÍ eða stjórn aðildarfélags ekki áður fjallað um málið eða úrskurðað í því.
  2. Erindi og umkvartanir sem vísað er til úrlausnar nefndarinnar frá sjúklingum og aðstandendum þeirra, læknum, og sérgreinafélögum lækna, heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisyfirvöldum eða öðrum hliðstæðum aðilum vegna meintra brota gegn Siðareglum LÍ (Codex Ethicus).

Komi upp ágreiningur milli læknis/lækna og LÍ eða milli aðildarfélags og LÍ skal leggja málið fyrir Siðanefnd LÍ.

Úrskurði stjórnar LÍ eða stjórnar aðildarfélags, sbr. 20. gr. má skjóta til Siðanefndar LÍ, hafi Siðanefnd ekki áður úrskurðað í málinu.


22. gr. 
Skipan Siðanefndar.

Í Siðanefnd LÍ sitja tveir læknar, sem kosnir eru á aðalfundi LÍ til tveggja ára í senn, sinn hvort árið.

Þriðji maður, sem jafnframt er kosinn á aðalfundi LÍ til tveggja ára í senn, skal vera löglærður og uppfylla skilyrði til að mega starfa sem dómari. Hann skal vera formaður nefndarinnar.

Varamenn skulu vera jafnmargir og kosnir á sama hátt og til jafn langs tíma.

Nefndin hefur aðsetur hjá Læknafélagi Íslands, sem greiðir kostnað af störfum hennar og sér henni fyrir nauðsynlegri aðstöðu.

Framkvæmdastjóri eða annar starfsmaður LÍ er ritari nefndarinnar.


23. gr. 
Móttaka erinda til Siðanefndar.

Erindi til Siðanefndar LÍ frá öðrum en stjórn LÍ skal senda framkvæmdastjóra LÍ, sem kemur þeim á framfæri við formann Siðanefndar.


24. gr. 
Hæfi og skipan varamanna vegna vanhæfis nefndarmanna.

Um hæfi nefndarmanna til þátttöku í meðferð einstaks máls fer eftir reglum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir því sem við á.

Ef þörf er á vegna vanhæfis nefndarmanna til meðferðar einstakra mála, nefndarmaður kýs að láta af þessum starfa eða nefndarmaður fellur frá og aðalfundarkjörnum varamanni ekki til að dreifa, er stjórn LÍ heimilt að skipa staðgengil í nefndina, enda fer stjórnin með málefni félagsins milli aðalfunda.


25. gr. 
Frávísun mála frá Siðanefnd.

Siðanefnd vísar frá sér þeim málum, sem hún álítur sér óviðkomandi eða hún telur að vísa beri til almennra dómstóla. Þegar svo stendur á skal nefndin þegar tilkynna stjórn LÍ og málsaðilum um þá niðurstöðu.

Ef dómsmáli er lokið um ágreiningsefni, en það síðan borið undir nefndina, vísar hún málinu frá sér.  


26. gr. 
Umboðsmenn málsaðila.

Aðila máls er heimilt að fela umboðsmanni sínum að gæta hagsmuna sinna fyrir nefndinni. Heimilt er að krefjast skriflegs umboðs til erindreksturs fyrir nefndinni.


27. gr. 
Erindi til Siðanefndar.

Erindi til nefndarinnar skal vera skriflegt og í því skal greint frá nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem sendir erindið. Einnig skal greint frá helstu málsatvikum sem eru tilefni erindisins, hvaða kröfur séu gerðar eða hvers vegna því er vísað til nefndarinnar. Erindið skal vera undirritað af aðila eða umboðsmanni hans.

Erindi skulu fylgja sönnunargögn þau, sem á er byggt. Öll gögn skulu berast nefndinni í fimm eintökum. Heimilt er að senda gögn til nefndarinnar á rafrænu formi.


28. gr. 
Andmælaréttur.

Strax og erindi berst Siðanefnd LÍ skal gefa þeim, sem erindið beinist að kost á að gefa skriflega umsögn um málið, enda liggi ekki þegar fyrir, í gögnum málsins, afstaða þess aðila og rök fyrir henni.


29. gr. 
Málshraði.

Siðanefnd skal fjalla um hvert það mál, sem henni berst og afgreiða það með eins skjótum hætti og kostur er.


30. gr. 
Nánar um málsmeðferð fyrir Siðanefnd.

Taki nefndin mál til meðferðar ákveður hún hvort frekari gagna skuli aflað, eftir að umsögn þess sem málið varðar, hefur borist eða svarfrestur líður án þess að aðili sendi umsögn. Gefa skal aðilum kost á að leggja fram viðbótargreinargerðir.

Nefndin getur krafið aðila um frekari gögn eða aflað þeirra. Nefndin getur kallað aðila fyrir sig til skýrslugjafar. Skýrslur aðila skal bóka í aðalatriðum.

Málsaðilum skulu að jafnaði kynnt gögn máls eftir því sem þau berast, nema slíkt sé bersýnilega óþarft eða réttmætar ástæður mæla gegn því að mati nefndarinnar sbr. ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga.

Frestur til að skila skriflegum greinargerðum eða athugasemdum skal að jafnaði vera 15 dagar, en heimilt er nefndinni að framlengja slíkan frest, ef sérstaklega stendur á. 

Sinni málsaðilar ekki tilmælum um skriflegar greinargerðir eða athugasemdir innan tilskilins frests skulu þau ítrekuð með nýjum fresti, sem skal að jafnaði ekki vera lengri en ein vika. 

Sinni málshefjandi ekki tilmælum nefndarinnar um framlagningu gagna er henni heimilt að vísa máli frá. Ef málsaðili sinnir ekki tilmælum nefndarinnar um skriflega umsögn eða framlagningu annarra gagna getur nefndin byggt úrlausn máls á framlögðum gögnum og öðrum upplýsingum, sem hún sjálf aflar um málið.

Nefndinni er heimilt, hvenær sem er við meðferð máls, að leita sátta með aðilum.

Siðanefnd ákveður hvenær málflutningur fer fram fyrir nefndinni og jafnframt hvort hann skuli vera skriflegur eða munnlegur.


31. gr. 
Sönnun.

Nefndin tekur afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls.

Ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, getur nefndin vísað máli frá.

Ef í máli er ágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísar hún málinu frá.


32. gr. 
Úrskurðir Siðanefndar.

Úrskurðir nefndarinnar skulu kveðnir upp svo fljótt sem verða má eða innan fjögurra vikna eftir að gagnaöflun telst lokið og mál er tekið til úrskurðar. Dragist uppkvaðning úrskurðar lengur fyrir nefndinni af óhjákvæmilegum ástæðum, skal málsaðilum tilkynnt um dráttinn og hann skal skýrður í niðurstöðu nefndarinnar. 

Úrskurðirnir skulu vera skriflegir og rökstuddir. 

Þess skal getið hvort nefndarmenn eru sammála um niðurstöðu. Ef um sératkvæði er að ræða skal það birt með niðurstöðu meirihluta.


33. gr. 
Nánar um úrskurði Siðanefndar.

Í úrskurði skal eftirfarandi koma fram:

a) hverjir eru aðilar máls,
b) efni það sem til úrlausnar er, kröfugerð og málavaxtalýsing,
c) helstu málsástæður og röksemdir málsaðila,
d) rökstuðningur fyrir niðurstöðu nefndarinnar,
e) aðalniðurstöðu skal draga saman í lok úrskurðar í sérstakt úrskurðarorð,
f) sératkvæði minnihluta, ef um slíkt er að ræða.


34. gr. 
Tilkynning og birting úrskurða Siðanefndar.

Nefndin sendir málsaðilum og stjórn LÍ staðfest endurrit úrskurðar jafnskjótt og hann hefur verið kveðinn upp.

Stjórn LÍ birtir alla úrskurði siðanefndar á innrivef heimasíðu LÍ. Við birtingu skal gæta nafnleyndar.


35. gr. 
Úrræði Siðanefndar.

Komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að læknir hafi brotið gegn Siðareglum LÍ (Codex Ethicus), lögum LÍ eða lögum aðildarfélags getur hún fundið að háttsemi hans eða veitt honum formlega áminningu.

Sé um ítrekað brot eða stórfellt brot að ræða, er Siðanefnd LÍ heimilt að mæla fyrir um að niðurstaða hennar skuli kynnt Landlækni.


36. gr. 
Málskostnaður.

Málsaðilar kosta sjálfir þau mál sem vísað er til nefndarinnar.


37. gr. 
Fundir Siðanefndar.

Nefndin heldur fundi eins oft og tilefni er til hverju sinni. Formaður nefndarinnar boðar til funda með hæfilegum fyrirvara. Formanni er skylt að boða til fundar ef nefndarmaður krefst þess.


38. gr. 
Gerðabók Siðanefndar.

Í gerðabók skal færa meginefni þess, sem fram kemur á fundum nefndarinnar og niðurstöður úrskurða. 

Í bókun í gerðabók skal greina frá: Hvar og hvenær mál er tekið fyrir, númer máls og nöfn málsaðila, hverjir eru mættir, hvaða skjöl eru lögð fram, hvers eðlis þau eru, móttökudagur þeirra og hvaða númer þau fá, frásögn og afstöðu málsaðila í skýru og stuttu máli og í niðurlagi bókunar að hún hafi verið lesin í heyranda hljóði og staðfest af aðilum eða umboðsmönnum þeirra með undirritun þeirra. 

Endurrit úr fundargerðarbók skal afhenda málsaðilum, enda hafi þeir verið viðstaddir fundinn.


39. gr. 
Úrskurðir Siðanefndar.

Fullskipuð nefnd kveður upp úrskurði. Skulu úrskurðir undirritaðir af þeim, sem þátt tóku í afgreiðslu viðkomandi máls. 

Afl atkvæða ræður úrslitum.


40. gr. 
Birting úrskurða og nafnleynd.

Siðanefnd mælir fyrir um það í úrskurði hvort forsendur og úrskurðarorð úrskurðar skuli birt í Læknablaðinu og hvort nafnleyndar skuli þá gætt eða ekki.


41. gr. 
Málskot.

Úrskurðir Siðanefndar sæta hvorki kæru né málskoti innan LÍ.


42. gr. 
Endurupptaka máls.

Málsaðilar geta óskað eftir því, að mál sé tekið upp að nýju fyrir Siðanefnd, hafi þeir, eftir að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, fengið upplýsingar eða heimildir, sem þeir telja, að myndu hafa breytt þeim úrskurði, ef þær hefðu legið fyrir, áður en hann var kveðinn upp. Siðanefnd úrskurðar, hvort þessar nýju upplýsingar eða heimildir séu þess eðlis, að á þeim megi byggja endurupptöku málsins.


43. gr. 
Nánar um reglur um málsmeðferð.

Að öðru leyti en að framan greinir gilda meginreglur gildandi stjórnsýslulaga um meðferð mála fyrir nefndinni.


44. gr. 
Ársskýrslur Siðanefndar.

Nefndin skal senda stjórn LÍ skýrslu um störf sín einu sinni á ári og skal hún kynnt á aðalfundi LÍ.


45. gr. 
Brottvísun úr félaginu.

Stjórn LÍ getur, að höfðu samráði við stjórn viðkomandi aðildarfélags, sé um það að ræða, vísað félagsmanni úr félaginu fyrir alvarlega vanrækslu skyldustarfa, velsæmisbrot eða fyrir ítrekuð brot.

Úrskurð stjórnanna um brottvísun skal taka fyrir á næsta aðalfundi LÍ til staðfestingar eða synjunar.


IX. KAFLI: Ýmis ákvæði.

46. gr. Upplýsingar til lækna við útskrift úr læknadeild.

Stjórn LÍ skal sjá um, að þau, sem ljúka námi í læknisfræði og fá almennt lækningaleyfi hér á landi strax að því loknu, fái lög og siðareglur LÍ, svo að þeim sé ljós tilvera félagsins, tilgangur þess og reglur, og réttindi þeirra og skyldur í því sambandi.


47. gr. 
Útgáfustarfsemi.

LÍ gefur út Læknablaðið. Stjórn LÍ ræður ritstjóra að blaðinu, einn eða fleiri, til tveggja ára í senn. Stjórn LÍ skipar ábyrgðarmann blaðsins úr hópi ritstjóra. Stjórn setur að öðru leyti reglur um rekstur blaðsins og ákveður þóknun til ritstjóra og annarra starfsmanna blaðsins. 

Útgáfustjórn skipa formenn LÍ, aðildarfélaga LÍ og ábyrgðarmaður blaðsins.


X. KAFLI: Um Siðfræðiráð LÍ.

48. gr. 
Siðfræðiráð LÍ.

Siðfræðiráð LÍ er ráðgefandi fyrir stjórn LÍ og aðildarfélög þess og sérgreinafélög.


49. gr. 
Skipun Siðfræðiráðs.

Stjórn LÍ skipar sjö lækna í Siðfræðiráð LÍ og tilnefnir einn þeirra sem formann.

Að öðru leyti skiptir ráðið sjálft með sér verkum.

Siðfræðiráð skal skipað til tveggja ára í senn.


50.gr. 
Daglegur rekstur Siðfræðiráðs.

LÍ leggur ráðinu til aðstöðu og skrifstofa félagsins sér um daglegan rekstur.


51. gr. 
Starfsreglur fyrir Siðfræðiráð.

Stjórn LÍ setur Siðfræðiráðinu starfsreglur, að fengnum tillögum ráðsins.


52. gr. 
Verkefni Siðfræðiráðs.

Verkefni ráðsins eru meðal annars:

  1. Að vinna að stöðugri endurskoðun Codex Ethicus,
  2. Að fjalla um álitamál og ágreiningsmál er varða lífsiðfræði,
  3. Að ræða siðræn vandamál, er varða læknastéttina sérstaklega,
  4. Að annast fræðslu á sviði siðfræði og siðamála lækna og
  5. Að þinga um önnur mál, sem til þess er vísað eða það kýs að ræða.


53. gr. 
Samvinna Siðfræðiráðs við aðra aðila.

Siðfræðiráð vinnur að verkefnunum í samvinnu við stjórn LÍ, sérgreina- og sérfélög lækna, aðrar heilbrigðisstéttir og aðrar starfsstéttir, áhugamannasamtök og stofnanir, svo sem á sviði guðfræði, heimspeki og lögfræði.


54. gr. 
Fundir Siðfræðiráðs.

Formaður ráðsins boðar til fundar í ráðinu að minnsta kosti einu sinni á ári og þá í tengslum við aðalfund eða formannaráðstefnu LÍ


55. gr. 
Forganga Siðfræðiráðs um umræður um siðamál.

Ráðið skal í samvinnu við fræðslunefnd læknafélaganna gangast fyrir almennum umræðum um siðamál á læknaþingi og endranær, þegar efni standa til.


56. gr. 
Þátttaka í fundum Siðfræðiráðs.

Ráðið getur heimilað öðrum aðilum setu á fundum, eftir því hver mál eru uppi hverju sinni og hafi þeir þar málfrelsi og tillögurétt.


57. gr. 
Ársskýrsla Siðfræðiráðs.

Siðfræðiráð skal gefa stjórn LÍ skýrslu um starfsemi sína minnst einu sinni á ári.


58. gr. 
Breytingar á lögum, reglum og á Codex Ethicus.

Lögum þessum og Codex Ethicus verður aðeins breytt á aðalfundi LÍ og greiði að minnsta kosti tveir þriðju hlutar fulltrúa atkvæði með breytingum.

Tillögur til breytinga á þeim skulu sendar fulltrúum að minnsta kosti tveim vikum fyrir aðalfund.

Innan félagsins skal starfa þriggja manna laganefnd, skipuð af stjórn, til stöðugrar endurskoðunar á lögum félagsins.


XI. KAFLI: Um Samskipta- og jafnréttisnefnd LÍ.

59. gr. Samskipta- og jafnréttisnefnd LÍ.

Á vegum félagsins starfar Samskipta- og jafnréttisnefnd LÍ og er hlutverk hennar að stuðla að jákvæðum samskiptum og jafnrétti með því að fræða félagsmenn og tryggja að vinnustaðir lækna hafi viðeigandi viðbragðsáætlanir og úrræði gegn t.d. áreitni, einelti, ofbeldi og misrétti. Nefndin tekur við erindum frá félagsmönnum er varða t.d. jafnréttismál, kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi eða einelti og kemur þeim í farveg. Nefndin hefur ekki úrskurðarvald en getur vísað málum áfram til Siðanefndar LÍ og lögfræðiþjónustu LÍ. Erindum beint til nefndarinnar skal senda framkvæmdastjóra LÍ eða fulltrúum nefndarinnar.


60. gr. Skipan Samskipta- og jafnréttisnefndar.

Í Samskipta- og jafnréttisnefnd LÍ eiga sæti fjórir læknar, þar af einn almennur læknir, skipaðir af stjórn LÍ til tveggja ára í senn. Við skipun nefndarinnar skal gæta að jöfnu hlutfalli kynjanna.

Varafulltrúar skulu vera jafnmargir og skipaðir á sama hátt og til jafn langs tíma.

Nefndin hefur aðsetur hjá LÍ sem greiðir kostnað af störfum hennar og sér henni fyrir nauðsynlegri aðstöðu.

Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.


61. gr. 
Fundir Samskipta- og jafnréttisnefndar.

Nefndin heldur fundi a.m.k. annan hvern mánuð en oftar ef tilefni er til. Formaður nefndarinnar boðar til funda með hæfilegum fyrirvara. Formanni er skylt að boða til fundar ef nefndarmaður krefst þess.

XII. KAFLI: Um Lýðheilsuráð LÍ.

62. gr. Lýðheilsuráð LÍ.

Á vegum félagsins starfar Lýðheilsuráð LÍ og er hlutverk þess að skapa vettvang til að þekking og reynsla lækna megi nýtast betur í umræðu og framkvæmd lýðheilsumála á Íslandi. Ráðið skapar tækifæri á samtali við samfélagið og yfirvöld um mikilvæg lýðheilsumál. Afstaða og ályktanir ráðsins byggi á faglegri og gagnreyndri þekkingu.

Ráðið er ráðgefandi fyrir stjórn LÍ, aðildarfélög þess og sérgreinafélög.

Stjórn LÍ setur ráðinu starfsreglur að fengnum tillögum þess.

Ráðið skal skila stjórn LÍ skýrslu um starfsemi sína minnst einu sinni á ári.

63. gr. Skipan Lýðheilsuráðs.

Stjórn LÍ skipar til tveggja ára í senn sjö lækna í Lýðheilsuráð LÍ. Hvert aðildarfélaga LÍ tilnefnir einn til setu í ráðinu og stjórn ákveður þrjá. Við skipun ráðsins skal gæta að jöfnu hlutfalli kynjanna.

Ráðið hefur aðsetur hjá LÍ sem greiðir kostnað af störfum þess og sér ráðinu fyrir nauðsynlegri aðstöðu.

Ráðið skiptir sjálft með sér verkum. 


64. gr. Fundir Lýðheilsuráðs.

Ráðið heldur fundi a.m.k. annan hvern mánuð en oftar ef tilefni er til. Formaður ráðsins boðar til funda með hæfilegum fyrirvara. Formanni er skylt að boða til fundar ef ráðsmaður óskar þess.