Sem betur fer

Vert er að benda á að í samfélagi þar sem æðsta umbun er metin í peningum og fjámagnið og umsýslendur þess fá forgang vill gleymast að góð heilsa er gulli betri. Ef mælistikur hagfræðinnar verða algilt viðmið í mati á heilbrigðisþjónustu með kröfu um sífellt aukna framleiðni verður að gera kröfu um að starfsaðstæður séu viðunandi og hugað sé að velferð starfsfólks.

Framleiðnikröfur mega ekki bitna á gæðum eða öryggi. Þá má ekki gleymast að líka þarf að færa arðsemi heilbrigðisþjónustunar til bókar og halda til haga í ræðu og riti. Öllum er ljós þjóðhagslegur ávinningur heilbrigðisþjónustunnar fyrir samfélagið og fyrirtækin í landinu. Ekki síður fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki að halda. En fáir nefna og enn færi reyna að greina arðinn til tölulegra stærða og samanburðar við útgjöld og kostnað.

Þrátt fyrir álag og ófullnægjandi starfsaðstæður skorar árangur íslensks heilbrigðisstarfsfólks hátt á alþjóðamælikvarða og má lesa um bæði í skýrslum og fagtímaritun, á meðan framlög og fjárhagslegur stuðningur stjórnvalda liggur lágt í samanburði.

Reynir Arngrímsson

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands

 

Á næsta kjörtímabili er tækifæri til að bæta úr. Meðal atriða sem setja þarf í farveg á uppbyggilegum umræðugrundvelli eru:

Þarfir íbúa í stað stofnanna séu í forgrunni

Marka þarf stefnu heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma með sveigjanlegum sviðsmyndum þar sem allir hlutar heilbrigðiskerfsins eru þátttakendur og íbúar og þarfir þeirra í forgrunni. Styrkleikar og hagkvæmni ólíkra rekstrarforma séu nýttir þar sem horft er til gæða, öryggis og hagkvæmni í rekstri. Fjármagn fylgi sjúklingi þar sem þjónusta er veitt. Skýrir gæðavísar, skilvirk þjónusta og öryggismenning í hávegum. Tryggja starfsemi hefðbundinnar læknisþjónustu og koma í veg fyrir töf á sjúkdómsgreiningum og aðgengi að meðferðarúrræðum. Hana þarf að efla á ný í kjölfar samdráttar í heimsfaraldri og tryggja greitt aðgengi og samfellu í þjónustu. Þjóðhagslegur ávinningur heilbrigðisþjónustu og arður virðist oft vanmetinn þegar starfseminn er vegin og metin. Fjármagn er hreyfiafl breytinga, þróunar og uppbygginar.

Velferð starfsfólks í heilbrigðisþjónustu

Aðgerðaráætlun gegn álagi og ofbeldi. Öryggi sjúklinga og starfsmanna sé tryggt öllum stundum við síbreytilegar aðstæður. Fyrir liggi mótvægisaðgerðir á álagsstundum sem tryggi sveigjanleika í starfi, svigrúm til hvíldar og réttláta umbun þeirra sem sinna áhættusömum störfum og annarra á álagstímum. Kallað er á aðgerðaráætlun gegn vaxandi ofbeldi í garð starfsfólks.Taka þarf mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins til endurskoðunar, meta ábyrgð og vinnuþyngd starfseininga sem grundvöll að nýrri mannauðsstefnu.

Viðbrögð við samfélagsbreytingum

Samstilla þarf átak þjóðarinnar og stjórnvalda með heilbrigðisstarfsfólki til að bregðast við heilsuvanda tengdum lífsstíl, breytingum í samfélagsgerð mannfjöldaþróun, aldurssamsetningu. Kallað er eftir stefnubreytingu í öldrunarmálum með áherslu á íbúaþjónustu með sveigjanlegri heilbrigðisþjónustu. Horfið sé frá núverandi aldurshámarki við starfslok. Horfa verður til læknisþjónustu á landsvísu. Íbúar reiða sig á traust heilbrigðiskerfi sem er grundvöllur búsetu og velferðar. Tryggja þarf festu í heilbrigðisþjónustu með fastráðningu lækna á landsbyggðinni.

Verkefni og verkaskipting

Leggja mat á álags- og áfallaþol heilbrigðiskerfisins og benda á leiðir til úrbóta. Endurskoða verkaskiptingu i heilbrigðiskerfinu þ.m.t. innra skipulag, verkefni og þjónustu Landspítala. Ljúka byggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss á kjörtímabilinu. Leysa þarfir kvennadeildar, geðþjónustu. Horfa til uppbyggingar og skipulags göngu- og dagdeildarþjónustu sem kjarna í hefðbundinni læknisfræði í nútíð og framtíð. Styrkja samvinnu opinberrar og einkarekinnar þjónustu með mögulegri tilfærslu verkefna og sveigjanleika í samvinnu. Veita samningsbundna þjónustu á réttum stöðum og forðast sóun. Ljúka þarf gerð samninga um heilbrigðisþjónustu á almennum vinnumarkaði án tafar.