Frá Orðanefnd - 59

 

Pistlaskrif Orðanefndar L.Í. hafa því miður legið niðri um talsverðan tíma. Meginorsökin er sú að undanfarið ár hefur nefndin unnið að nokkuð yfirgripsmiklu verkefni, undirbúningi og útgáfu á fjórða heftinu í ritröð sem nefnist „Orðasafn í líffærafræði“. Fyrsta heftið kom út árið 2013 og geymir heiti í stoðkerfinu, annað heftið árið 2016 með heitum á helstu líffærum mannsins, þriðja heftið árið 2017 og geymir heiti í æðakerfinu og loks kom út fjórða heftið haustið 2019 og hefur það að geyma heiti í taugakerfinu. 

Á árinu 2019 voru tekin saman um það bil 500 heiti á líffærafræðilegum fyrirbærum í taugakerfinu, svipaður fjöldi og í hverju af fyrri heftunum. Íslensku líffæraheitin og þau latnesku komu úr Íðorðasafni lækna sem varðveitt er í heild sinni í Íðorðabankanum. Öll þessi heiti voru endurskoðuð og samræmd, tilsvarandi enskum heitum var bætt við og sömuleiðis skilgreiningum eða lýsingum á öllum fyrirbærunum, en þær hafði skort í safnið. 

Heitin í heftinu eru sett upp í hefðbundna, líffærafræðilega röð innan taugakerfisins. Í hverri færslu má finna enskt, íslenskt og latneskt heiti á hverju fyrirbæri og helstu samheiti, þegar þau eru fyrir hendi, og einnig skilgreiningu eða lýsingu hvers fyrirbæris á íslensku. Aftast fylgja svo tveir orðalistar, annar ensk-íslenskur og hinn íslensk-enskur. 

Þetta hefti er, eins og hin fyrri, fyrst og fremst ætlað nemendum og starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu, en er í raun og veru öllum opið og verður fyrst um sinn selt í Bóksölu stúdenta í Háskóla Íslands. Stutta kynningu er að finna í Bókatíðindum frá 2019.  Einstakar færslur eru svo öllum aðgengilegar til uppflettingar í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar (https://idordabanki.arnastofnun.is/). 

Núverandi orðanefnd Læknafélags Íslands hefur starfað reglubundið í sjö ár og tekur nú aftur til við hefðbundna endurskoðun og endurnýjun á Íðorðasafni lækna. Nefndin er skipuð fimm læknum og hefur málfræðing sér til aðstoðar. Hún heldur mánaðarlega fundi haust, vetur og vor og eru allar fundargerðir birtar hér á vef félagsins. Nefndin tekur við fyrirspurnum til úrvinnslu, en velur sér einnig verkefni eftir eigin mati. Oft er leitað álits hjá öðrum læknum, einkum sérfræðingum í viðeigandi greinum, og í lokin má nefna að fullt rými er fyrir fleiri áhugasama lækna í nefndinni.