„Hvers vegna eru leghálsskimunarsýni send til útlanda til greiningar? Svara heilbrigðisráðherra er óskað,“ segja þau Anna Margrét Jónsdóttir, Ísleifur Ólafsson og Þorbjörn Jónsson í grein í Morgunblaðinu í dag. Greinina má lesa hér fyrir neðan.
Þorbjörn segir mikilvægt að stjórnsýsluþáttur málsins sé skoðaður. Svo virðist sem gengið sé þvert á ráðleggingingar fagfólks úr ýmsum hópum, sem hafi verið skipaður af yfirvöldum, sem allir leggi til að rannsóknirnar verði gerðar á rannsóknarstofum innanlands. „Þá er ákveðið á lokametrunum að það séu ekki innviðir í landinu til að gera þetta hér á landi. Þetta lýsir miklu vantrausti,“ segir hann.
„Ég hef unnið í fjörtíu ár á rannsóknardeildum spítalans og rökin sem notuð eru nú eru þvílík öfugmæli. Við höfum hugsað mikið um þetta og okkur þykir mikilvægt að ráðamenn svari þeim spurningum sem við setjum fram í greininni.“
Þorbjörn segir mikilvægt að málið komist úr upphrópunum í efnisatriðið. „Hvers vegna var leitað til ólíkra sérfræðihópa ef aðeins átti að hlusta á sérfræðinga ráðuneytisins? Af hverju er talið að þeir viti betur?“
Í greininni segir meðal annars: „Margt er ámælisvert í ferli þessa máls og það hefur verið harðlega gagnrýnt m.a. af læknaráði Landspítalans, Félagi rannsóknarlækna, lífeindafræðingum og kvensjúkdómalæknum. Full rök eru fyrir því að tryggja megi gæði og öryggi slíkra rannsókna hér á landi.“ Og:
„Af hverju varð þessi kúvending á lokastigi málsins? Er þetta birtingarmynd íslenskrar stjórnsýslu? Hvernig ætla þingmenn að taka á stjórnsýslu af þessu tagi?“
Mynd/Læknablaðið
Eftir Önnu Margréti Jónsdóttur, Ísleif Ólafsson og Þorbjörn Jónsson
Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að rannsóknir á leghálsskimunarsýnum verði gerðar á rannsóknarstofu í Hvidovre í Danmörku. Meginreglan er að sýni eru rannsökuð á Íslandi, enda tryggir slíkt skjóta afgreiðslu, öryggi og hagkvæmni. Með nýju fyrirkomulagi var ákveðið að flytja leghálssýnagreiningar á erlenda rannsóknastofu. Þessi stefnubreyting kallar á viðhlítandi skýringar stjórnvalda.
Margt er ámælisvert í ferli þessa máls og það hefur verið harðlega gagnrýnt m.a. af læknaráði Landspítalans, Félagi rannsóknarlækna, lífeindafræðingum og kvensjúkdómalæknum. Full rök eru fyrir því að tryggja megi gæði og öryggi slíkra rannsókna hér á landi.
Það að færa þessar greiningar til útlanda stangast á við álit skimunarráðs, embættis landlæknis, meirihluta fagráðs um leghálsskimanir og verkefnastjórnar um framkvæmd breytinga á krabbameinsskimunum. Allir hafa ráðlagt að HPV-veirupróf og frumurannsóknir á leghálssýnum verði gerð á rannsóknarstofum innanlands. Til yfirlits er gott að rýna í tímalínu þessa máls:
Framkvæmdin, sem hefur verið ákveðin, og felst í að gera rannsóknir á leghálssýnum erlendis gengur í berhögg við ráðleggingar og álit opinberra aðila, nefnda og fagfólks. Af hverju varð þessi kúvending á lokastigi málsins? Er þetta birtingarmynd íslenskrar stjórnsýslu? Hvernig ætla þingmenn að taka á stjórnsýslu af þessu tagi? Ekki var heldur farið að ráðum landlæknis og skimunarráðs að hafa gott samráð við alla aðila málsins og nýta fyrirliggjandi fagþekkingu. Því vakna ýmsar spurningar sem óskað er eftir að ráðherra heilbrigðismála svari:
Stjórnsýsla þessa máls vekur ótal spurningar og yfirvöldum ber skylda til að útskýra hvernig það gerðist að mikilvægum hluta af leghálsskimun var útvistað til danskrar rannsóknarstofu í lokaferli málsins. Það var gert þvert á álit fagaðila. Til að endurheimta glatað traust er nauðsynlegt að heilbrigðisráðherra upplýsi málið og snúi við fyrri ákvörðun. Það er stórslys fyrir heilbrigðisþjónustuna ef þessar rannsóknir færast út fyrir landsteinana og mikilvæg sérþekking glatast hér á landi.
Höfundar eru læknar og stjórnarmenn í Félagi íslenskra rannsóknarlækna. Anna Margrét er formaður félagsins.
Mynd/Skjáskot/Morgunblaðið
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga