1. gr.
Félagið heitir Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK).
2. gr. a.
Félagar í FÍFK geta orðið þeir sem hafa hlotið sérfræðiviðurkenningu í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Einnig geta þeir sem stunda sérnám í greininni hér á landi orðið félagar og greiða þeir hálft árgjald. Sérfræðingar í FÍFK verða sjálfkrafa félagar í NFOG og námslæknar félagar í NFYOG.
2. gr. b.
Við 67 ára aldur getur félagi óskað eftir heiðursaðild í FÍFK og greiðir þá hálft árgjald. Við það fellur niður aðild að FIGO, EBCOG og NFOG ásamt áskrift að ACTA. Að öðru leyti nýtur heiðursfélagi sömu hlunninda og aðrir félagar.
3. gr.
Tilgangur félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunum er varða fæðinga- og kvensjúkdómafræði á Íslandi, að efla faglega þekkingu og vísindaáhuga og hvetja til aukinna rannsókna og menntunar félagsmanna. Þá skal félagið vera umsagnaraðili í faglegum málum er tengjast greininni og ráðgjafi heilbrigðisyfirvalda. Einnig skal félagið gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart heilbrigðisyfirvöldum. Félaginu ber að hafa fagleg samskipti við sambærileg erlend félög.
4. gr.
Stjórn skal skipuð formanni, gjaldkera, ritara, meðstjórnanda og fulltrúa lækna í sérnámi. Formaður er kosinn til tveggja ára með möguleika á endurkjöri eitt ár í senn. Fulltrúi lækna í sérnámi skal kosinn til eins árs. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára með möguleika á endurkjöri. Stjórnin skiptir með sér verkum.
5. gr.
Á aðalfundi skal kosið í starfandi nefndir til 2 ára í senn. Stjórn og félagsfundi er heimilt að skipa í nýjar nefndir milli aðalfunda.
6. gr.
Aðalfund félagsins skal halda ár hvert að vori og skal eftirfarandi tekið fyrir:
a. skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár
b. endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
c. skýrslur nefnda
d. lagabreytingar
e. kosning stjórnar
f. kosnir skoðunarmenn
g. árgjald ákveðið
h. kosning nefnda og fulltrúa
i. önnur mál
Tillögur að lagabreytingum skal senda formanni minnst 3 vikum fyrir aðalfund og þær kynntar í fundarboði, sem skal senda út með a.m.k. 2ja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Lögum má einungis breyta á aðalfundi og því aðeins að helmingur gjaldskyldra félaga sé á fundi og 2/3 þeirra greiði breytingum atkvæði. Uppfylli aðalfundur ekki skilyrði til lagabreytinga, skal boða til framhaldsaðalfundar innan hálfs mánaðar. Sá aðalfundur er ætíð lögmætur og ræður afl atkvæða.
7. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga