Lög Félags íslenskra Nýrnalækna
1. gr. Heiti félagsins og lögheimili
Félagið heitir á íslensku: Félag Íslenskra Nýrnalækna (FÍSN), á ensku : Icelandic Renal Association (IRAS). Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Félagar
Félag Íslenskra Nýrnalækna er sjálfstæður félagsskapur íslenskra nýrnalækna. Fullgildir aðilar að félaginu geta þeir læknar orðið sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu í nýrnalækningum á Íslandi. Aukafélagar geta þeir læknar orðið sem hafa lært læknisfræði á Íslandi eða hafa íslenskan ríkisborgararétt og stunda nám eða vinnu við nýrnalækningar erlendis. Auk þess geta aðrir aðilar sem starfa á sviði nýrnalæknisfræði sótt um aukaaðild sem er þá háð samþykki stjórnar FÍSN. Aukafélagar eru á félagaskrá, hafa rétt til fundarsetu og fá senda ársskýrslu stjórnar en hafa ekki atkvæðisrétt og greiða um 20% af fullu árgjaldi. Stofnfélagar teljast þeir sem sátu stofnfund hinn 22. júní 1988. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg.
3. gr. Markmið
Markmið félagsins er að efla stöðu nýrnalækninga á Íslandi. Félagið er fullgildur aðili að Norræna Nýrnalæknafélaginu [Nordisk Nefrologisk Selskab (NNS)] og eru allir félagar FÍSN sjálfkrafa meðlimir að því.
4. gr. Samstarf við NNS
Formaður FÍSN situr í stjórn NNS. Félagið tekur þátt í undirbúningi Nordiske Nyredage sem er þing NNS, haldið annað hvert ár. FÍSN annast þingið í fimmta hvert skipti og útnefnir forseta og undirbúningsnefnd þess þings.
5. gr. Stjórn
Stjórn félagsins skipa þrír félagsmenn: formaður, ritari og gjaldkeri. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hver fyrir sig til tveggja ára í senn. Formennska í félaginu takmarkist við fjögur ár í senn.
6. gr. Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í janúar ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tilkynntri dagskrá með minnst tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir félagar sem greitt hafa álagt árgjald. Kalla má til aukaaðalfundar á sama hátt og til aðalfundar ef stjórn eða þriðjungur félagsmanna óskar svo. Aðalfundur telst löglegur ef helmingur félagsmanna er mættur. Lagabreytingar öðlast gildi ef meirihluti aðalfundar samþykkir.
Dagskrá aðalfundar:
7. gr. Stjórnarstörf
Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda og sinnir markmiðum þess og tengslum þess út á við.
8. gr. Almennir félagsfundir
Almennir fundir eru haldnir eftir þörfum jafnt sjálfstætt sem í samvinnu við aðra ef þurfa þykir. Stjórnin boðar til félagsfunda.
9. gr. Vantraust og félagsslit
Óski þriðjungur félagsmanna að bera fram vantraust á stjórnina eða aðra kjörna fulltrúa skal það gert skriflega til formanns og ber honum þá að kalla saman aukaaðalfund innan þriggja vikna. Sama gildir ef 2/3 hlutar félagsmanna óska eftir að slíta félaginu.
10. gr. Gildistími
Lög þessi öðlast gildi við samþykkt á aðalfundi hinn 27. desember 1999 og gilda þar til lagabreytingar eiga sér stað.
Lagabreytingar:
á 6. grein í desember 2004 þar sem “desember” var tekið út og “janúar” bætt inn þar sem segir: “Aðalfundur skal haldinn í janúar ár hvert”.
á 2. grein voru gerðar í janúar 2007 þar sem fellt var út: “Aðilar að félaginu geta þeir læknar orðið sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu í nýrnalækningum á Íslandi eða stunda framhaldsnám í þeirri grein á viðurkenndum stofnunum.” Í stað þessa var bætt inn: “Fullgildir aðilar að félaginu geta þeir læknar orðið sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu í nýrnalækningum á Íslandi. Aukafélagar geta þeir læknar orðið sem hafa lært læknisfræði á Íslandi eða hafa íslenskan ríkisborgararétt og stunda nám eða vinnu við nýrnalækningar erlendis. Auk þess geta aðrir aðilar sem starfa á sviði nýrnalæknisfræði sótt um aukaaðild sem er þá háð samþykki stjórnar FÍSN. Aukafélagar eru á félagaskrá, hafa rétt til fundarsetu og fá senda ársskýrslu stjórnar en hafa ekki atkvæðisrétt og greiða um 20% af fullu árgjaldi.
2016: á 2. grein var fellt út að aukaflégar greiði um 20% af fullu árgjaldi
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga