Lög Félags Íslenskra Öldrunarlækna
1. gr. Nafn félagsins er Félag íslenskra öldrunarlækna (Icelandic Geriatric Society). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Tilgangur félagsins er að:
a) efla þekkingu og rannsóknir á sviði öldrunarfræði og öldrunarsjúkdóma.
b) stuðla að forvörnum, bættri greiningu og meðferð öldrunarsjúkdóma.
c) halda uppi samskiptum við hliðstæð félög erlendis.
d) vinna að hagsmunum íslenskra öldrunarlækna.
e) vinna að framgangi öldrunarlækninga á Íslandi í samstarfi við önnur félög og stofnanir.
3. gr. Félagar geta orðið allir íslenskir læknar sem hafa öldrun og öldrunarsjúkdóma sem starf eða áhugasvið.
4. gr. Stjórn félagsins skipa þrír menn, ritari, gjaldkeri og formaður. Kosið skal sérstaklega á aðalfundi, til hvers starfs fyrir sig, til þriggja ára í senn, þó þannig að einungis sé kosið til eins starfs starfs í senn á aðalfundi, sem haldinn er að hausti ár hvert. Félagsmaður má sitja samfellt eitt ár í embætti. Tveir endurskoðendur skulu kosnir á aðalfundi til þriggja ára, árið sem kosið er til gjaldkera. Á aðalfundi skal ákveða árgjald félagsins og leggja fram endurskoðaða reikninga. Til aðalfundar skal boða skriflega með viku fyrirvara.
5. gr. Fræðslufundi skal halda þegar tilefni gefst til og eftir nánari ákvörðun stjórnar. Óski fjórðungur félagsmanna eftir félagsfundi er stjórninni skylt að boða til hans innan fjögurra vikna.
6. gr. Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi og skulu breytingartillögur birtar með fundarboði. Tillögur um lagabreytingar og félagsslit þurfa samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna. Aðrar tillögur falla á jöfnum atkvæðum nema í kosningu á milli manna, þá ræður hlutkesti.
Lög samþykkt á stofnfundi FÍÖ, 26. október 1989 með síðari breytingum á 4. grein sem samþykktar voru á aðalfundi 12. nóvember 1992.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga