Lög félagsins

Lög Félags lækna gegn umhverfisvá

I. NAFN, AÐSETUR OG MARKMIÐ

1. gr.
Félagið heitir Félag lækna gegn umhverfisvá. Á ensku heitir félagið The Icelandic Society of Doctors for the Environment. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Markmið félagsins eru:

  1. Að standa vörð um lýðheilsu með því að stuðla að aukinni áherslu á verndun umhverfis.
  2. Að hvetja til sjálfbærrar þróunar sem mætir þörfum mannkyns í dag án þess að ganga á möguleika komandi kynslóða.
  3. Að hvetja til upplýstrar umræðu um náttúru og umhverfismál byggða á vísindalegum grunni.
  4. Fræðsla til lækna, annars heilbrigðisstarfsfólks og almennings um áhrif umhverfis á heilsu.

3. gr.
Félagið vinnur að því að ná markmiðum sínum með því að:

  1. Móta stefnu félagsins um mikilvægustu málefnin hverju sinni er varða umhverfisvernd á Íslandi
  2. Þátttöku í þjóðfélagsumræðu um umhverfismál.
  3. Umsögnum og aðgerðum er tengjast mati á umhverfisáhrifum og ákvörðunum um landnýtingu, og með umsögnum um þingmál.
  4. Hvetja lækna til að hafa þátt umhverfismála í huga varðandi lýðheilsu samfélagsins.
  5. Að hvetja til frekari vísindarannsókna og fræðslu um umhverfismál.
  6. Taka þátt í alþjóðasamtökum lækna um umhverfismál

4. gr.
Félagið er óháð stjórnmálaflokkum.

II. AÐILD

5. gr.
Félagsmaður getur hver sá orðið sem uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum:

  1. Læknar með lækningaleyfi á Íslandi
  2. Læknanemar á Íslandi
  3. Íslenskir læknanemar erlendis


6. gr
Félagsmenn greiða ekki árgjald í félaginu.

7. gr .
Skráning í félagið er með rafrænum hætti. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna með tölvupósti til formanns félagsins.

8. gr.
Aðalfundi félagsins er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu, verði félagsmaður sannur að því að vinna gegn markmiðum félagsins.

III. AÐALFUNDUR OG ALMENNIR FÉLAGSFUNDIR

9. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.

10. gr.
Rétt til setu á aðalfundi eiga allir skráðir meðlimir í félaginu. Allir þátttakendur á aðalfundi hafa málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt.

11. gr.
Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi. Aukinn meirihluta þarf þó til lagabreytinga skv 16. gr og til að slíta félaginu skv því sem tilgreint er nánar í 24. gr.

12. gr
Reglulegur aðalfundur skal haldinn í janúar annað hvert ár. Stjórn félagsins skal sjá um að auglýsa aðalfund með að minnsta kosti 28 daga fyrirvara.

13. gr.
Halda skal auka aðalfund félagsins ef annað hvort á við:

  • Stjórn telur nauðsynlegt að halda aðalfund
  • 1/10 félagsmanna óska skriflega eftir að aðalfundur sé haldinn.

14. gr.
Til að hafa atkvæðisrétt á aðalfundi þurfa félagar að hafa verið skráðir í félagið í viku eða lengur.

15. gr.
Eftirfarandi atriði skulu vera á dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður félagsins setur fundinn
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Formaður veitir yfirlit um starfsemi félagsins
  4. Kosning stjórnarmanna félagsins
  5. Afgreiðsla lagabreytinga
  6. Marka stefnu félagsins
  7. Önnur mál


16. gr.
Breytingar á lögum félagsins skulu eingöngu gerðar á aðalfundi. Þurfa tillögur til lagabreytinga að berast til stjórnar að minnsta 7 dögum fyrir aðalfund. Þarf að minnsta kosti ⅔ greiddra atkvæða á aðalfundi til að lagabreytingartillaga sé samþykkt.

17. gr
Almennan félagsfund skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að ósk 1/10 hluta skráðra félaga. Skal fundur boðaður þá innan 14 daga með tölvupósti.

IV. STJÓRN FÉLAGSINS

18. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 7 stjórnarmönnum. Allir félagsmenn eru kjörgengir til stjórnar í félaginu. Skal leitast við að stjórn félagsins sé skipuð fjölbreyttum hópi hvað varðar kynferði, aldur, búsetu og starfssviði innan læknisfræðinnar.

19. gr.
Stjórnin er kosin á aðalfundi til tveggja ára í senn eða til næsta aðalfundar. Formaður getur ekki verið í embætti lengur en 4 ár en ekki eru mörk á hve lengi aðrir stjórnarmeðlimir geta setið í stjórn.

20. gr.
Stjórn skal halda stjórnarfund í beinu framhaldi af aðalfundi og þá kjósa formann stjórnar og ritara.

21. gr.
Formaður boðar stjórnarfundi með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara. Stjórnarfundur telst löglegur ef að lágmarki helmingur stjórnarmeðlima eru viðstaddir. Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum stjórnar á stjórnarfundi.

22. gr.
Ef stjórnarmaður segir af sér skal formaður boða til stjórnarfundar innan mánaðar. Skal stjórn þar ákveða hvort boða þurfi til auka aðalfundar til að kjósa nýjan stjórnarmann.

23. gr.
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Stjórnin framkvæmir ákvarðanir aðalfunda og félagsfunda en hefur fulla heimild til að mynda álit á einstökum málum og stjórnarmenn að tjá sig fyrir hönd félagsins í samræmi við markmið þess. Formlegar umsagnir um þingmál sem sendar eru til Alþingis í nafni félagsins skulu vera samþykktar af fjórum eða fleiri stjórnarmönnum.

V. SLIT FÉLAGSINS

24. gr
Ef tillaga um slit félagsins er lögð fram á aðalfundi í samræmi við 16. gr um lagabreytingartillögur skal fara fram atkvæðagreiðsla um tillöguna. Þarf samþykki ¾ hluta atkvæða á aðalfundi til að tillagan sé talin samþykkt.

 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins í Reykjavík þann 20. janúar 2023


Til baka