Lög LR

Samþykkt á framhaldsaðalfundi
29. maí 2018, eftir breytingar á lögum LÍ
á aðalfundi  LÍ 2018 og lagabreytingar
á aðalfundi LR 2020. 

Lög
Læknafélags Reykjavíkur

I.KAFLI
Heiti félagsins, heimili og markmið.

1. gr.
Heiti félagsins og heimili.
Félagið heitir Læknafélag Reykjavíkur (LR) og er félag lækna sem að hluta eða öllu leyti starfa sjálfstætt. Lögheimili þess og varnarþing er í Kópavogi. Félagið er eitt aðildarfélaga Læknafélags Íslands (LÍ).

2. gr.
Markmið.
Markmið félagsins eru:
a.   Að gæta hagsmuna félagsmanna.
b.   Að stuðla að samheldni og faglegri samvinnu lækna.
c.   Að standa vörð um sjálfstæði læknastéttarinnar.
d.   Að efla framþróun í læknisfræði og heilbrigðisþjónustu og stuðla að símenntun lækna.
e.   Að vinna að stefnumótun í heilbrigðismálum.   
f.    Að vinna að því að starfsemi lækna uppfylli kröfur um fagleg gæði og hagkvæmni með því að stuðla að gæðaskráningu og umbótastarfi.
g.   Að bæta starfsaðstæður og kjör félagsmanna í víðum skilningi.
h.   Að gæta heildarhagsmuna þeirra, sem þess óska, sem vinna að hluta sjálfstætt en að hluta á heilbrigðisstofnunum eða öðrum stofnunum.

II. KAFLI
Félagsmenn, félagsgjöld, kosningaréttur og kjörgengi,
úrsagnir úr félaginu, kjör heiðursfélaga.

3. gr.
Félagsmenn.
Félagar geta þeir orðið sem hafa lækningaleyfi, velja að vera í félaginu og telja hag sínum þar best borgið.
LR er félag lækna sem starfa að hluta til, eða að öllu leyti, sjálfstætt til dæmis í stofurekstri, sem verktakar, hjá einkafyrirtækjum, sjálfstætt við vísindastörf, við tryggingamál, á samningi við SÍ eða eru á annan hátt í sjálfstæðri starfsemi.  

4. gr.
Félagsgjöld.
Aðalfundur ákveður félagsgjöld félagsmanna til að standa straum af rekstri félagsins. Árgjald skal greitt fyrir 1. september hvert ár.

5. gr.
Kosningaréttur og kjörgengi.
Fullgildir félagar með kosningarétt og kjörgengi í embætti félagsins eru þeir læknar sem eru félagar skv. 3. gr. og greiða árgjald til félagsins eftir því sem nánar hefur verið ákveðið skv. 4. grein. Stjórn félagsins sker úr um ágreining sem upp kann að koma um þetta atriði nema á félagsfundi sem þá tekur málið til afgreiðslu.

6. gr.
Úrsagnir úr félaginu.
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg.

7. gr.
Kjör heiðursfélaga.
Stjórn félagsins getur valið heiðursfélaga úr hópi lækna, vísindamanna eða velunnara félagsins. Val heiðursfélaga skal vera einróma  ákvörðun stjórnar og skal tilkynna hana á aðalfundi.


III. KAFLI
Aðalfundur, dagskrá aðalfundar, setning aðalfundar og fundarstjóri. Félagsfundir.

8. gr.
Aðalfundur.
Aðalfundur skal haldinn á tímabilinu mars – maí ár hvert og fer hann með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal boða tryggilega, t.d. með rafrænum hætti og á heimasíðu LÍ með minnst tveggja vikna fyrirvara.
Í fundarboði skal getið dagskrár og tillögu stjórnar um helming aðal- og varafulltrúa félagsins á komandi aðalfundi Læknafélags Íslands.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

9. gr.
Dagskrá aðalfundar.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:

a.   Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.
b.   Endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir liðið reikningsár með athugasemdum skoðunarmanna.
c.   Lagabreytingatillögur
d.   Stjórnarkjör. Hlutkesti ræður ef atkvæði eru jöfn. 
e.   Kjör annars tveggja fulltrúa félagsins í stjórn Læknafélags Íslands og varamanns hans.
f.    Kosning helmings aðal- og varafulltrúa á komandi aðalfundi Læknafélags Íslands. Heimilt er að tilnefna aðra fulltrúa á þessum fundi en fram koma í tillögu stjórnar. Séu fleiri tilnefndir en kjósa skal teljast þeir kosnir sem fá flest atkvæði.
g.   Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins og eins varamanns.
h.   Ákvörðun árgjalds félagsins og fjárhagsáætlun.
i.    Önnur mál.

10. gr.
Setning aðalfundar og fundarstjóri.
Formaður eða staðgengill hans setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra. Atkvæðagreiðsla fer fram eftir því sem fundarstjóri kveður á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram ef einhver fundarmanna óskar eftir því.

11. gr.
Félagsfundir.
Félagið heldur fundi um félagsleg málefni eftir því sem þurfa þykir og að jafnaði eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Fundir skulu haldnir samkvæmt ákvörðun stjórnar, fundarályktunum eða þegar minnst 20 félagsmenn óska þess. Reglulega fundi skal boða með viku fyrirvara. Í fundarboði skal geta dagskrár. Formaður tilnefnir fundarstjóra. Bóka skal það helsta sem gerist á fundum félagsins, einkum fundarsamþykktir.


IV.
KAFLI
Stjórn félagsins, verksvið stjórnar og nefndir, skipan
og kjör fulltrúa á aðalfund Læknafélags Íslands.

12. gr.
Stjórn félagsins.
Stjórn skal skipuð fimm mönnum og þremur til vara og skulu þeir kjörnir í þessari röð: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, meðstjórnandi og varamenn. Skal hver þeirra kosinn til tveggja ára í senn. Við það skal miðað að sami einstaklingur sé ekki lengur en 6 ár í sama embætti.
Tillögur um kjör stjórnarmanna og varamanna í stjórn skal senda stjórn LR eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Stjórn gætir þess að ekki sé gerð tillaga um færri menn en kjósa á, en sérhver félagsmaður hefur tillögurétt.
Stjórn félagsins getur ákveðið að stjórnarkjör og kjör fulltrúa félagsins í stjórn LÍ skuli fara fram með rafrænum hætti. Við framkvæmd slíkra stjórnarkosninga skal hafa mið af ákvæðum laga LÍ um rafrænt kjör formanns félagsins.

13. gr.
Verksvið stjórnar og nefndir.
Stjórn fer með málefni félagsins á milli aðalfunda.
Stjórnin skal hafa vakandi auga á öllu því er varðar lækna, störf þeirra og hagsmuni. Hún kemur fram fyrir hönd félagsmanna, veitir umsagnir og miðlar upplýsingum til félagsmanna og annarra um það er varðar læknastéttina og hlutverk hennar. Stjórnin leysir úr ágreiningsmálum milli félagsmanna og varðandi félagsmenn og getur vísað þeim til siðanefndar Læknafélags Íslands.
Fundir stjórnar eru lögmætir þegar meirihluti er mættur, eða tengist fundinum með rafrænum hætti eða fjarfundabúnaði.
Rita skal fundargerðir funda stjórnar og nefnda félagsins.
Stjórn skipar nefndir félagsins eftir þörfum. Þegar nefndir fjalla um hagsmuni ákveðins hóps lækna skal þess jafnan gætt að fulltrúi viðkomandi hóps starfi með nefndinni.
Nefndir félagsins skulu skila greinargerð um störf sín til stjórnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.

14. gr.
Skipun og kjör fulltrúa á aðalfund Læknafélags Íslands.
Helmingur aðal- og varafulltrúa félagsins á aðalfund Læknafélags Íslands skal kosinn á aðalfundi LR sbr. 9. gr. og standi tala fulltrúa á oddatölu, skal oddamaður kosinn á aðalfundi.
Stjórn LR skipar síðan þá aðal- og varafulltrúa sem á vantar til að fullum fulltrúafjölda LR á aðalfund LÍ sé náð eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund.


V. 
KAFLI
Reikningsár og endurskoðun.

15. gr.
Reikningsár og endurskoðun.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Kjörnir skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá.
Fyrir 1. mars ár hvert skal gjaldkeri hafa lokið við samning reiknings fyrir liðið reikningsár í samvinnu við löggiltan endurskoðanda ef þurfa þykir. Skoðunarmenn skulu gera stjórninni grein fyrir skoðun sinni og athugasemdum innan þriggja vikna.


VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

16. gr. 
Samninganefnd Læknafélags Reykjavíkur.
Samninganefnd LR fer með samningsumboð þeirra sérgreina og sjálfstætt starfandi lækna sem það kjósa. Nefndin skal skipuð af stjórn LR. Fjárútlát vegna starfa nefndarinnar verða einungis eftir samþykkt stjórnar. Stjórn LR setur reglur um samninganefnd og samninga­sjóð.Vilji félagsmenn eða hópur félagsmanna, sem starfa samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ, fela LR samningsumboð sitt ber að halda löglega boðaðan félags­fund með þessum félagsmönnum þar sem tillaga þessa efnis er á dagskrá og er rædd. Samþykki þessir félagsmenn á slíkum félagsfundi með 2/3 atkvæða að LR sé falið að fara með kjarasamnings­umboð hópsins, telst það samþykkt.

Fund skv. 2. mgr. þarf að halda með nægum fyrirvara til að unnt sé að tilkynna stjórn LÍ og samningsaðila breytingar á samningsaðild og samnings­umboði a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þess kjarasamnings, sem félagsmenn LR starfa samkvæmt.

17. gr.
Lagabreytingar.
Lögum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn LR a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund. Tillögur til lagabreytinga skal kynna í fundarboði aðalfundar.

18. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.




Til baka