Lög VLFÍ

Lög Verkjalæknafélags Íslands

1.grein.
Heiti félagsins
Félagið heitir Verkjalæknafélag Íslands. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein.
Tilgangur og markmið félagsins
Tilgangur félagsins er:

  1. Að stuðla að samheldni og félagslegri og faglegri samvinnu félagsmanna.
  2. Að stuðla að aukinni þekkingu á verkjalækningum.
  3. Að stuðla að rannsóknum innan verkjalæknisfræði.
  4. Að stuðla að gangreyndri meðferð verkjasjúkdóma á Íslandi.
  5. Að stuðla að auknu aðgengi að sérhæfðum verkjalækningum á Íslandi.
  6. Að taka þátt í alþjóðlegri starfsemi verkjalækna.
  7. Að gæta hagsmuna félagsmanna.
  8. Að koma fram fyrir þeirra hönd félagsmanna við gerð samninga.


3. grein.

Félagsmenn
a. Innganga meðlima: Meðlimir í Verkjalæknafélagi Íslands geta þeir orðið sem viðurkenndir eru sérfræðingar í sérhæfðum verkjalækningum á Íslandi. Sá sem óskar eftir að gerast félagsmaður kemur undirritaðri inntökubeiðni sinni til stjórnar félagsins. Komi upp vafi um hvort umsækjandi uppfylli inntökuskilyrði skal stjórn félagsins skera úr um það. Uni umsækjandi ekki þeim úrskurði skal honum heimilt að leggja málið fyrir félagsfund sem sker þá endanlega úr um málið. Í inntökubeiðni skal koma fram að viðkomandi félagsmaður muni hlíta lögum og samþykktum félagsins og að hann feli félaginu umboð til samningagerðar fyrir sína hönd.
b. Innganga aukameðlima: Aukameðlimir í Verkjalæknafélagi Íslands geta orðið læknar sem áhuga hafa á verkjalækningum. Hafi þeir áhuga á því, koma þeir undirritaðri inntökubeiðni sinni til stjórnar félagsins. Greiða skal atkvæði um inngöngu þeirra á félagsfundi en 2/3 hluta greiddra atkvæða þarf til að þeir fái inngöngu. Aukameðlimir hafa ekki atkvæðisrétt og greiða lágmarksgjald sem er ákveðið á aðalfundi.
c. Brottvísun: Félagsfundur getur vísað félaga úr félaginu ef stjórn félagsins ber fram rökstudda tillögu þar um og ¾ fundarmanna greiða tillögunni atkvæði.


4. grein.

Félagsgjöld
Félagsmenn greiða félagsgjald sem renna í félagssjóð. Félagssjóði er ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Félagsmenn greiða ekki félagsgjöld eftir 70 ára aldur. Félagsmenn með fasta búsetu erlendis greiða lágmarksgjald eins og aukameðlimur. Félagsgjald er ákvarðað á aðalfundi og skulu greidd í síðasta lagi í lok almanaksárs. Ef síðan líður eitt ár og félagsmaður hefur ekki greitt félagsgjald þá fellur félagsaðild hans niður og tilkynnir stjórnin honum það skriflega.

5. grein.
Úrsagnir úr félaginu
Úrsögn skal vera skrifleg. Hún skal afhent formanni félagsins eða stjórn. Geri félagsmaður í eigin nafni, eða annar fyrir hans hönd, samning um sérgreinalæknishjálp glatar hann öllum félagsréttindum og telst ekki lengur í félaginu ef:

a.  hann gerir samning um sérgreinalæknishjálp sem skerði atvinumöguleika annarra félagsmanna, enda hafi hann ekki borið samninginn upp á félagsfundi, hann hafi ekki fengið umfjöllun né hafi hann verið samþykktur með 2/3 greiddra atkvæða á auglýstum félagsfundi.
b.  hann með samningnum undirbýður sérgreinalæknishjálp verkjalækna.

Félagsmönnum er heimilt að gera samninga um aðra hluti en sérgreinalæknishjálp án þess að bera það undir félagsfund, enda skerðir það ekki atvinnumöguleika annarra félagsmanna.


6. grein.

Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í lok febrúar ár hvert og fer hann með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Aðalfundur skal boðaður félagsmönnum með bréfi og/eða á rafrænan hátt með minnst 2 vikna fyrirvara.

a. Dagskrá. Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:
    i.    Skýrsla. Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.
    ii.   Reikningar. Fram skulu lagðir endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir liðið reikningsár. Eftir umræðu skulu þeir bornir undir atkvæðagreiðslu. Reikningar teljast samþykktir með meirihluta greiddra atkvæða.
   iii.  Kosning stjórnar. Kjósa skal formann, ritara og gjaldkera sérstaklega. Hlutkesti ræður ef atkvæði eru jöfn. Kjósa skal 2 varamenn og ræðst kosning þeirra af afli atkvæða, en hlutkesti ef atkvæðin eru jöfn. Stjórnin er skipuð til 3 ára í senn.
   iv.  Kosning samninganefndar. Kjósa skal formann samninganefndar. Hlutkesti ræður ef atkvæði eru jöfn. Kjósa skal 2 samninganefndarmenn í einu lagi og ræðst kosning þeirra af afli atkvæða, en hlutkesti ef atkvæðin eru jöfn. Samninganefnd er skipuð til 3 ára í senn.
   v.  Kosning skoðunarmanna reikninga. Kjósa skal 2 skoðunarmenn reikninga félagsins og ræðst kosning þeirra af afli atkvæða, en hlutkesti ef atkvæðin eru jöfn. Skoðunarmenn eru skipaðir til 3 ára í senn.
   vi.  Fjárhagsáætlun. Leggja skal fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Eftir umræðu skal hún borin undir atkvæðagreiðslu. Fjárhagsáætlun telst samþykkt með 2/3 hluta greiddra atkvæða.
   vii.  Lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast minnst viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar sem fram koma á aðalfundi skulu teknar til umræðu án afgreiðslu, enda leyfi aðalfundur það.
   viii. Önnur mál.


7. grein.

Félagsfundir
Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 25% fullgildra félagsmanna óska þess við stjórn félagsins enda tilgreini þeir fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Þó má í sambandi við vinnudeilur boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Komi upp ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk. Heimilt er að boða fundi bréflega eða á rafrænan hátt.


8. grein.

Skipun stjórnar
Aðalstjórn félagsins skipa 3 menn, formaður, ritari og gjaldkeri, og skulu þeir kosnir til 3 ára í senn. Til að tryggja samfelldni í störfum félagsins skal kjósa um formann fyrst, en ritara og gjaldkera ári síðar. Kjósa skal 2 varamenn í stjórn til þriggja ára í senn. Kosið er um annan með formannskjöri en um hinn þegar kosnir eru ritari og gjaldkeri.


9. grein.

Starf stjórnar
Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfundi óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna og tilnefnir aðalmaður varamann í sinn stað. Ritari gegnir skyldu formanns í forföllum hans.


10. grein.

Verksvið stjórnar
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda. Stjórnin heldur skrá yfir meðlimi, aukameðlimi og heiðursfélaga auk skrár yfir fulltrúa félagsins í erlendum samtökum. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eignum félagsins. Hún kemur fram fyrir hönd félagsmanna, veitir umsagnir og miðlar upplýsingum til félagsmanna og annarra um það er varðar sérgrein þeirra og hlutverk hennar. Stjórnin leitast við að leysa úr ágreiningsmálum milli félagsmanna og varðandi félagsmenn. Fundir stjórnar eru lögmætir þegar meirihluti er mættur á fund. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins, enda skal það kynnt fundarmönnum áður en hljóðritun hefst. Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókfærslu eftir nánari ákvörðun stjórnarinnar.


11. grein.

Nefndir
a.  Samninganefnd: Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast samningagerð fyrir hönd félagsins. Nefndin skal kjörin á aðalfundi til þriggja ára í senn sbr. 6 gr.lið a iv.
b. Aðrar nefndir:
    i. Beiðni um formlegt álit Verkjalæknafélags Íslands um einstök mál. Komi beiðni um álit um einstök mál skal stjórn félagsins taka afstöðu til afgreiðslu málsins. Stjórnin afgreiðir einfaldar fyrirspurnir eða eftir atvikum ber þau upp á félagsfundi sem tekur ákvörðun um afgreiðslu málsins.
    ii. Ráðstefnuhald. Ef áformað er að félagið standi fyrir vísindaráðstefnu skal stjórn félagsins bera það upp á félagsfundi sem tekur ákvörðun um framhald málsins.


12. grein

Kjör fulltrúa í erlendum samtökum
Stjórn Verkjalæknafélags Íslands kannar vilja félagsmanna til að gerast fulltrúar félagsins í erlendum samtökum. Hafi þeir áhuga á því skal hún bera það upp á fundi Verkjalæknafélagsins. Greiða skal atkvæði um tilnefninguna en helming greiddra atkvæða þarf til að þeir fái útnefningu. Útnefningin er án skuldbindinga af hendi félagsins nema slíkt sé sérstaklega ákveðið.


13. grein.

Fjármál
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Tveir félagskjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn, 7 dögum fyrir aðalfund.


14. grein.
Lagabreytingar
Lögum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni/unum. Tillögur að lagabreytingu/um þarf að leggja fram á félagsfundi. Til að hægt sé að greiða atkvæði um þær þurfa þær að berast minnst viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar sem fram koma á aðalfundi skulu teknar til umræðu án afgreiðslu, enda leyfi aðalfundur það.


15. grein.

Reglur við kjör heiðursfélaga í Verkjalæknafélagi Íslands
a.  Tilnefndur heiðursfélagi skal hafa haft áhrif á þróun íslenskra verkjalækninga.
b.  Umsókn skal lögð fram af einum eða fleiri meðlimum félagsins og tilkynnt í fundarboði, með tveggja vikna fyrirvara.
c.  Fyrir liggi lífshlaupsskrá og yfirlit yfir helstu vísindagreinar tilnefnds heiðursfélaga.
d.  Kjör fer fram á löglegum aðalfundi félagsins og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að heiðursfélagi nái kjöri. Atkvæðagreiðsla er leynileg. Frávik má leyfa ef gild rök liggja til.

 

 


Til baka