37 dauðsföll vegna mislinga í Evrópu á árinu

Yfir 41.000 manns smituðust af mislingum í Evrópu á fyrri hluta ársins, samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Það eru mun fleiri en á síðustu árum. 37 hafa látist á árinu vegna mislinga í Evrópu á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis, segir að flest tilfellin hafi komið upp í Úkraínu og einnig á Ítalíu, Grikklandi, í Frakklandi og Ungverjalandi. „Það eru hópar í þessum löndum sem vilja ekki láta bólusetja. Þegar menn eru að meta þátttöku í bólusetningu er hún kannski ekkert svo slæm í þessum löndum þegar heildar talan er birt en það eru stórir hópar óbólusettir og þá koma upp þessir faraldrar,“ sagði Þórólfur í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann segir ýmsar ástæður vera fyrir því hvers vegna fólk hafni bólusetningu við mislingum. „Það getur verið af trúarástæðum, eða verið náttúrulegar ástæður. Sumar telja að það sé betrra að fá mislinga heldur en að vera bólusettur einhverra hluta vegna og það getur verið mjög erfitt að ná til þess fólks með raunverulegar og sannar upplýsingar.“

                                                                                 Viðtal við Þórólf má heyra á ruv.is