„Við fórum í annað. Það er ósköp einfaldlega þannig,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, við Læknablaðið og vísar í heimsfaraldurinn spurð hvers vegna svo langan tíma hefur tekið að taka á fráflæðisvanda spítalans.
Hún segir frá því í 4. og nýjasta tölublaði Læknablaðsins, sem er nýkomið út, að níu vinnuhópar hafi unnið að áætlunum um hvernig mæta á tillögum átakshóps heilbrigðisráðherra um lausn á fráflæðisvanda Landspítala. Spítalinn hafi fjölgað hópunum um þrjá til að ná utan um verkefnið. Nú um páskana hafi spítalinn stefnt á að kynna heilbrigðisráðherra tillögur um lausn að vandanum.
Fjölmargt má lesa í nýja Læknablaðinu. Rætt er við Reyni Arngrímsson, formann Læknafélagsins til síðustu fjögurra ára, en hann er sjálfkjörinn til næstu tveggja ára. „Mér finnst ég enn í miðju kafi og langaði að leiða ýmis verkefni til lykta,“ segir Reynir spurður hvers vegna hann hafi sóst eftir því að leiða félagið áfram. Hægt er að lesa viðtal við Reyni og heyra hlaðvarp Læknablaðsins hér.
Lesa má viðtal við Sunnu Snædal, formann Vísindasiðanefndar og hlusta á haðvarpsþátt hér. Hún segir sér koma á óvart hversu margt fólk stundi vísindi samhliða fullri vinnu. Ný kynslóð sætti sig síður við þá stöðu og því þurfi kerfisbreytingu eigi vísindastarf að dafna í íslensku samfélag.
Þá segir Kristbjörg Sveinsdóttir, yfirlæknir þriðju stærstu nýburadeildarinnar í Svíþjóð, í viðtali við blaðið lækna sína stöðugt fást við siðferðisspurningar.
Fræðigreinar aprílblaðsins eru tvær:
Þórgunnur Ársælsdóttir, geðlæknir á bráðaþjónustu geðþjónustunnar á Landspítala, skrifar ritstjórnargrein um kvíða í óvissutímum. Og Páll E. Ingvarsson, taugalæknir á endurhæfingardeild Landspítala Grensási og klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands, ritar ritstjórnargrein undir fyrirsögninni: Að bæta göngugetu.
Lestu 4. tölublað 2021 hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga