Á hvernig vinnustað vilja framtíðarlæknar vinna?


Félag læknanema (FL) og Félag almennra lækna (FAL) kalla eftir því að Landspítali háskólasjúkrahús taki þátt í þeirri upprætingu kynbundinnar mismununar, kynferðislegrar áreitni og ofbeldi sem á sér stað í samfélaginu í dag. Við fögnum núverandi endurskoðun verkferla er varða þessi mál en köllum samtímis eftir umfangsmikilli fræðslu og innleiðingu þeirra á vegum mannauðssviðs þegar þeir liggja fyrir. Viðbragðsaðilar nefndir í verkferlunum þurfa að fá viðeigandi fræðslu og þjálfun. Þá köllum við einnig eftir því að aðrar heilbrigðisstofnanir hérlendis skoði hvort verkferlar er varða þessi mál séu til staðar eða þarfnist endurskoðunar. Okkur ber að standa með þolendum, gerendur skuli axla ábyrgð sína og fá hjálp viðeigandi fagaðila.

Áreitni og ofbeldi á aldrei að líðast. Rannsóknir benda til þess að ákveðnir hópar innan heilbrigðiskerfisins séu líklegri en aðrir til að verða fyrir áreitni og ofbeldi í starfi, til að mynda konur og nemar. Beiting mismununar, áreitni og ofbeldi sýnir dómgreindarbrest. Þegar einstaklingur sem sinnir ábyrgðarstöðu brýtur af sér skal velta upp hæfni og fagmennsku viðkomandi í starfi. Þá sérstaklega hvað varðar ábyrgð, vald yfir öðrum, handleiðslu og starfsaðstæður.

Öryggismenning er varðar sjúklinga er í hávegum höfð innan veggja Landspítala háskólasjúkrahúss. Við köllum eftir að slík menning nái einnig til kynferðislegrar áreitni og ofbeldis í garð nema og starfsmanna Landspítala. Einstaklingar eiga rétt á að mæta til vinnu og náms án þess að þurfa að óttast um eigið öryggi.

Við teljum að næsta skref sé að innleiða stefnu í málaflokknum, þess efnis að kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og mismunun verði ekki liðin með neinum hætti á okkar þjóðarsjúkrahúsi og framtíðarvinnustað (e. zero tolerance policy). Krefst það hugrekkis og fordæmisgefandi aðgerða af hálfu spítalans. Við teljum að einungis þannig sé hægt að standa vörð um öryggi starfsfólks og nema á stofnuninni og fyrirbyggja frekari mismunun, áreitni og ofbeldi.

Landspítali háskólasjúkrahús er stærsti náms- og vinnustaður lækna á Íslandi. Það á einnig við um aðrar heilbrigðisstéttir. Viðbrögð Landspítala eru fordæmisgefandi fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir og senda skilaboð til ungra kynslóða sem eru framtíðarstarfskraftur þjóðarsjúkrahússins. Það er Landspítalans að ákvarða hvers eðlis þau skilaboð eru.

Virðingarfyllst,
Stjórn FL og FAL