Ný stjórn Læknafélags Íslands

Nýkjörin stjórn Læknafélags Íslands hélt sinn fyrsta stjórnarfund mánudaginn 10. október sl.
Samkvæmt 9. gr. laga LÍ er stjórnin skipuð níu mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og fimm meðstjórnendum. Einn meðstjórnanda er skipaður af Félagi almennra lækna. Formaður, ritari, varaformaður og gjaldkeri skulu kosnir hver fyrir sig til tveggja ára í senn. Annað árið skal kjósa formann og gjaldkera og var það síðast gert 2015 þegar Þorbjörn Jónsson var endurkjörinn formaður og Björn Gunnarsson, sem verið hafði meðstjórnandi í stjórninni var kjörinn gjaldkeri. Hitt árið skal kjósa ritara og varaformann og var það gert á aðalfundinum núna. Orri Þór Ormarsson var endurkjörinn varaformaður og Magdalena Ásgeirsdóttir endurkjörinn ritari. Fjórir meðstjórnendur eru kosnir til eins árs í senn.

Í stjórn LÍ starfsárið 2016-2017 eru Þorbjörn Jónsson formaður, Orri Þór Ormarsson varaformaður, Björn Gunnarsson gjaldkeri, Magdalena Ásgeirsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Arna Guðmundsdóttir, Hjalti Már Þórisson, Jóhanna Ósk Jensdóttir og Þórarinn Ingólfsson. Af hálfu Félags almennra lækna situr Agnar H. Andrésson í stjórn LÍ. Ný í stjórn þetta starfsár eru Agnar, Hjalti Már og Jóhanna Ósk.
Á aðalfundinum voru samþykktar breytingar á lögum LÍ sem fela í sér að framvegis verður stjórn LÍ kosin af öllum félagsmönnum í rafrænni kosningu. 

Stjórn LÍ 2016-2017