Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2017 var haldinn í Kópavogi 19. og 20. október. Við setningu aðalfundarins fór formaður félagsins, Þorbjörn Jónsson, yfir helstu þætti starfsársins sem einkenndist m.a. af undirbúningi og gerð nýs kjarasamnings við fjármála- og efnahagsráðherra 6. júní 2017 og undirbúningi aldarafmælis félagsins á næsta ári. Þorbjörn hefur verið formaður LÍ frá 2011 en gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku.
Heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé ávarpaði fundinn. Allmiklar umræður urðu í kjölfar ávarps ráðherra sem svaraði fjölmörgum fyrirspurnum aðalfundargesta.
Í stjórn LÍ næsta starfsár verða Reynir Arngrímsson formaður, Orri Þór Ormarsson varaformaður, Björn Gunnarsson gjaldkeri, Magdalena Ásgeirsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Agnar H. Andrésson, Hjalti Már Þórisson, Jóhanna Ósk Jensdóttir, María Gottfreðsdóttir og Ólafur Ó. Guðmundsson. Nýir í stjórn eru auk formannsins Reynis Arngrímssonar, María Gottfreðsdóttir og Ólafur Ó. Guðmundsson.
Aðalfundurinn samþykkti lagabreytingar sem fela í sér viðamiklar skipulagsbreytingar á Læknafélagi Íslands, þær mestu frá árinu 1952. Framvegis verða allir læknar félagsmenn í LÍ og velja sér síðan eitt fjögurra aðildarfélaga en áður voru læknar félagsmenn í LÍ gegnum svæðafélög lækna. Fyrirkomulagi kosninga í stjórn LÍ var einnig breytt. Formaður verður áfram kosinn rafrænni kosningu allra félagsmanna en formenn hinna nýju aðildarfélaga verða sjálfkjörnir í stjórn LÍ. Til viðbótar kýs hvert aðildarfélag annan mann í stjórn LÍ.
Þá samþykkti aðalfundurinn fjórar ályktanir um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál.
Í ályktun um heilbrigðismál kemur fram að aðalfundur LÍ ítrekar fyrri ályktanir um forgangsröðun ríkisfjármála og að heilbrigðismál fái þar aukið vægi. Heilbrigðiskerfið hafi lengi búið við aðhald og niðurskurð en almenningur krefjist þess að meiri fjármunum sé varið til málaflokksins. Bætt staða ríkissjóðs gefi færi á að efla heilbrigðiskerfið. Í ályktuninni kemur fram að LÍ lýsir sig reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um nauðsynlega eflingu heilbrigðiskerfisins.
Í ályktun um heilbrigði og velferð barna hvetur aðalfundur LÍ ríki og sveitarfélög til að setja velferð og heilbrigði barna í forgang. Sannað sé að aðstæður í æsku hafi mikil áhrif á heilbrigði einstaklinga seinna á ævinni. Ein besta forvörn gegn sjúkdómum sé að koma í veg fyrir áföll snemma í lífinu og tryggja góðar aðstæður í bernsku.
Í ályktun um kostnaðarþátttöku hvetur aðalfundur LÍ til þess að greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu verði minnkuð og að mikilvægt sé að greiðsluþátttaka í lækniskostnaði, lyfjum og hjálpartækjum falli undir sameiginlegt greiðsluþak. Þá megi greiðsluþátttökukerfi ekki verða til að fólk neiti sér um nauðsynlega þjónustu. Frá faglegum sjónarhóli læknis á kostnaður sjúkratryggðra ekki að hafa áhrif á ákvarðanir um meðferð.
Í ályktun um lokun heilbrigðisráðuneytis á rammasamningi Sjúkratrygginga við sérfræðilækna mótmælir aðalfundurinn harðlega lokun heilbrigðisráðuneytis á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna og krefst þess að hið opinbera standi við gerða samninga. Rammasamningurinn sé mikilvægur hluti hins opinbera heilbrigðiskerfis með u.þ.b. hálfa milljóna sjúklingaheimsókna á ári. Lokunin ógni nýliðun í hópi sérfræðilækna. Meðalaldur starfandi sérfræðilækna sé hár. Árið 2016 var nær helmingur þeirra eldri en 60 ára og enginn yngri en 40 ára. Mikil þörf sé á nýliðun til að tryggja áframhaldandi nýjungar og framfarir í læknisfræði. Aðför að þessari þjónustu sé óheillaskref og skorar fundurinn á ráðherra og heilbrigðisyfirvöld að falla frá lokuninni tafarlaust.
Í ályktun um veipur skorar aðalfundurinn á heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld að tryggja með lögum að aðgengi að rafrettum (veipum) sé takmarkað. Það sé óviðunandi að frábærum árangri í tóbaksvörnum á Íslandi sé ógnað með heilsuspillandi athæfi. Æskilegt sé að aðgengi að veipum sé takmarkað við lyfjaverslanir og þær ekki seldar ungmennum undir 18 ára aldri.
Í ályktun vegna ummæla landlæknis í garð lækna í hlutastarfi á Landspítala mótmælir aðalfundurinn harðlega órökstuddum ummælum landlæknis á hádegisfundi BSRB hinn 9. október sl. um að læknar í hlutastarfi á Landspítala og á stofum úti í bæ starfi ekki á spítalanum af heilum hug. Með þessum orðum vegi landlæknir að starfsheiðri yfir 200 lækna og sakar þá um óheilindi gagnvart sjúklingum og vinnuveitanda. Aðalfundurinn skorar á landlækni að draga ummælin tafarlaust tilbaka á opinberum vettvangi.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga