Ályktun stjórnar LÍ um fjárlagafrumvarp ársins 2018

Stjórn Læknafélags Íslands samþykkti á stjórnarfundi sínum þann 14. desember sl, eftirfarandi ályktun um fjárlagafrumvarp ársins 2018: 

 

 
Gera þarf kröfur um bætta stjórnsýslu og mannauðsstjórnun og taka á skipulagsvanda samhliða auknum fjárveitingum til heilbrigðismála

Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) fagnar tillögum um auknar fjárveitingar til heilbrigðis- og menntamála sem fram koma í nýju fjárlagafrumvarpi. Stjórn LÍ telur mikilvægt að auknir fjármunir innan heilbrigðiskerfisins nýtist sem best til að bæta og þróa þjónustu við sjúklinga, leysa úr bráðum vanda í öldrunar- og hjúkrunarþjónustu og heilsugæslu landsmanna. Áríðandi er að bæta fjármögnun náms í heilbrigðisfræðum, bæði grunn- og framhaldsmenntun svo og rannsóknartengt nám í heilbrigðisvísindum.

Stjórn LÍ bendir á að rétt sé að meta reynslu af nýrri reglugerð um greiðsluþátttöku sjúklinga og tilvísanakerfi sjúkra barna og mögulega sníða af henni vankanta.

Þá leggur LÍ þunga áherslu á að jafnframt sé tekið á viðvarandi stjórnunar- og skipulags- og mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins á landsvísu. Stjórn Lí brýnir heilbrigðisráðherra til að gera kröfur um bætta og eðlilega mannauðsstjórnun og stjórnsýslu þegar fjármunum næsta árs verður úthlutað.

Ábendingar bæði landlæknis og Umboðsmanns Alþingis um stjórnsýsluágalla og mannauðsstjórnun innan helstu heilbrigðisstofnanna landsins er að mati stjórnar LÍ verulegt áhyggjuefni. Ef ekki verður gripið nú þegar til úrbóta í þessum efnum, m.a. með nauðsynlegri endurnýjun í hópi stjórnenda heilbrigðisstofnana, getur það að mati stjórnar LÍ haft áhrif á öryggi sjúklinga, framþróun heilbrigðisþjónustunnar og mönnun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til lengri og skemmri tíma, eins og sjá má nú þegar merki um.

Læknafélag Íslands lýsir sig reiðubúið til að vinna með heilbrigðisráðherra að slíkum endurbótum og mótunar heilbrigðisstefnu til lengri tíma.