Á fundi stjórnar Læknafélags Íslands hinn 13. nóvember sl. var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) lýsir yfir eindregnum stuðningi við ályktun Alþingis sem samþykkt var 9. nóvember sl. um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.[1]
Stjórn LÍ skorar á ríkisstjórnina að gera allt sem í hennar valdi stendur til að án tafar verði komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara. Stjórn LÍ treystir því að ríkisstjórnin bregðist við ákalli Alþingis um að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í þingsályktuninni.
Stjórn LÍ tekur undir fordæmingu Alþingis á öllum ofbeldisverkum, sem beinast gegn almennum borgurum. Stjórn LÍ krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.
Stjórn LÍ tekur undir fordæmingu Alþingis á hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Stjórn LÍ tekur sömuleiðis undir fordæmingu Alþingis á öllum aðgerðum ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og valdið hafa óheyrilegum þjáningum, manntjóni, mannfalli almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Stjórn LÍ leggur þunga áherslu á að hlutleysi heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsfólks sé virt og að heilbrigðisstofnanir og sjúkraflutningar séu undir engum kringumstæðum gerð að skotmörkum. Stjórnin fordæmir harðlega árásir á sjúkrahús, sjúklinga, heilbrigðisstarfsfólk og almenna borgara sem leitað hafa skjóls á sjúkrahúsum í yfirstandandi átökum. Stjórn LÍ telur líkt og Alþingi að brýnt sé að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.
Stjórn LÍ tekur undir ákall Alþingis eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.“
[1] Ályktun Alþingis er aðgengileg hér: https://www.althingi.is/altext/154/s/0522.html
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga