Stjórn Læknafélags Íslands segir í ályktun að með þeirri ráðstöfun að leita til erlendra aðila um rannsóknarhluta krabbameinsleitar í leghálsi séu mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi á tímum þegar þegar atvinnuleysið er í hæstum hæðum.
„Þá telur LÍ að það veki upp spurningar um atvinnu- og heilbrigðispólitíkina sem nú er rekin í landinu að hægt virðist vera að gera samninga um heilbrigðisþjónustu erlendis án útboðs á sama tíma og stjórnvöld telji sér óheimilt að ganga til samninga um sérhæfða innlenda heilbrigðisþjónustu án útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu.“
Álykutnin var gerð 8. febrúar síðastliðinn. Stjórn LÍ ályktar að áríðandi sé að krabbameinsleit sem í boði er hérlendis samræmist bestu gagnreyndu þekkingar læknisfræðinnar og reynslu sem völ er á. Hún hvetur konur til að mæta reglubundið í krabbameinsleitina.
Svona hljóða ályktunin í heild sinni:
Ályktun um krabbameinsleit í leghálsi - Stjórn Læknafélags Íslands 8. febrúar 2021
Stjórn Læknafélags Íslands telur áríðandi að krabbameinsleit sem í boði er hérlendis samræmist bestu gagnreyndu þekkingar læknisfræðinnar og reynslu sem völ er á. Flutningur á mikilvægri heilbrigðisþjónustu krefst vandaðs undirbúnings og breytingastjórnunar sem margir aðilar þurfa að koma að. LÍ leggur áherslu á mikilvægi samráðs heilbrigðisráðuneytisins við fag- og sérgreinafélög lækna þegar kemur að umfangsmiklum stefnubreytingum í heilbrigðissþjónustu eins og nú á sér stað um fyrirkomulag krabbameinsleitarinnar. Leiðarljós breytinga verður að vera skilvirkni og öryggi þjónustunnar.
Krabbameinsfélag Íslands hefur annast krabbameinsleit í leghálsi um árabil. Ákveðið hefur verið að þjónustan flytjist nú til heilsugæslunnar í landinu. Við þessi tímamót er vert að þakka það mikla starf og frumkvæði sem KÍ hefur innt af hendi um áratuga skeið. Jafnframt óskar LÍ heilsugæslunni góðs gengis í nýjum verkefnum.
Á sama tíma harmar stjórn LÍ að ekki hafi gefist tími til að gera við innlenda aðila samning um rannsóknarhluta leitarstarfsins. Fyrir liggur að þennan hluta vinnunnar eigi að flytja til erlendrar rannsóknarstofu. Með þeirri ráðstöfun eru mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi á tímum þegar þegar atvinnuleysið er í hæstum hæðum.
Tekið er undir álit Embættis landlæknis, Félags íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna, Félags rannsóknalækna og meirihluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini að stefnt skuli að því allir þættir skimunarferilsins verði framkvæmdir hérlendis. Þá telur LÍ að það veki upp spurningar um atvinnu- og heilbrigðispólitíkina sem nú er rekin í landinu að hægt virðist vera að gera samninga um heilbrigðisþjónustu erlendis án útboðs á sama tíma og stjórnvöld telji sér óheimilt að ganga til samninga um sérhæfða innlenda heilbrigðisþjónustu án útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu.
Stjórn LÍ hvetur konur til að mæta reglubundið í krabbameinsleitina og alla hlutaðeigandi aðila um að taka höndum saman við að styrkja leitarstarf í landinu og sameinast um að allir þættir þess séu á hendi íslenska heilbrigðiskerfisins.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga