Á heimasíðu Landspítalans birtust 24. ágúst sl. athugasemdir Landspítala við ýmis ummæli mín um stöðu Landspítalans.
Auðvitað var viðbúið að yfirstjórn Landspítalans gerði athugasemdir.
Ég tel óhjákvæmilegt annað en að koma á framfæri nokkrum athugasemdum vegna þessa.
1. Um fjármögnun Landspítala.
Í svörum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Katrínar Jakobsdóttur í kjölfar fundar með forstjóra Landspítalans um yfirstandandi bylgju COVID faraldursins virðist þeirra niðurstaða sú að erfiðleikar gjörgæslunnar séu eingöngu vegna mönnunar en ekki skort á fjármagni , sjá bæði m.facebook.com/bjarni.benediktsson og Bítið - 6 vikur í kosningar: Það eru mörg mál sem við klárum ekki
Í 1. tölulið athugasemda Landspítala er því haldið fram að önnur skilaboð hafi verið gefin á umræddum fundi. Ég var ekki á þessum fundi en miðað við fjölmiðlaumfjöllun verður ekki betur séð en að fundarmenn hafi ekki verið á sama fundinum, svo lítill samhljómur er með þeim um efni hans.
2. Um ráðningar hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeild síðasta vetur
Í mörg ár hefur legið ljóst fyrir að alltof fá gjörgæslurými eru starfrækt á Landspítalanum. Stjórnendur Landspítala gáfu fyrirheit um að fjöldi gjörgæslurýma yrði aukinn í kjölfar þriðju bylgu COVID faraldursins. Það gerðist ekki heldur var ákveðið að fækka gjörgæslurýmum úr 13 niður í 10 í aðdraganda sumars 2021.
Í samtali við yfirmenn og á fundi með yfirstjórn var eingöngu sparnaðarkrafa gefin upp sem ástæða þessa niðurskurðar. Aldrei var minnst á að forgangsraða ætti því að starfsmenn fengju full óskert sumarfrí.
Fyrir hvert eitt gjörgæslurými hefur almennt verið gert ráð fyrir 5 heilum stöðugildum hjúkrunarfræðinga.
Í auglýsingu í vetur voru 4 stöðugildi hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu auglýst.
Strax heyrðist að óvenju margar umsóknir hefðu borist og er enn talað um að hátt í 10 hjúkrunarfræðingar hafi sótt um fyrrnefndar fjórar stöður. Það er röng fullyrðing yfirlýsingarinnar að allir hjúkrunarfræðingarnir, sem voru ráðnir í vetur í fyrrnefndar 4 stöður hafi verið með sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun.
Ég tel að öllum hafi mátt vera ljóst að útreikningar mínir um starfsmannaveltu á sólarhring á gjörgæsludeild voru ekki nákvæmir. Tekið skal fram að í þeim var ég að miða við þá starfsmannaveltu sem þarf til að manna 10 gjörgæslurými eins og lagt var upp með í sumar, en ekki 13-14 gjörgæslurými eins og þegar gjörgæsludeildin er fullmönnuð yfir vetrartímann.
Þessi staðreynd, að 13-14 gjörgæslupláss sem krefjast réttilega 90-100 starfsmanna á sólarhring, bregður nýju og öðru ljósi á framlag þeirra 2-4 starfsmanna Klíníkurinnar sem bættust við gjörgæsluna eftir sérstakan samning við Sjúkratryggingar Íslands. Látið var í veðri vaka að þessi viðbót hefði haft úrslitaáhrif í baráttunni við núverandi bylgju.
Samkvæmt yfirlýsingu yfirstjórnar eru nú 14 gjörgæslurými mönnuð.
Ef það er rétt þá blasir við að spyrja: Með hvaða mannskap?
Starfsmenn sem þegar eru í vinnu hafa ítrekað verið beðnir um að taka tvöfaldar vaktir eða aukavaktir; starfsmenn í sumarfríum hafa verið að stytta eða breyta fríum og koma fyrr til starfa úr þeim; starfmenn á skurðstofum hafa verið fluttir inná gjörgæsludeildar; fyrrum starfsfólk gjörgæslunnar hefur verið fengið utan af landi sem íhlaupafólk og heyrst hefur að verið sé að kanna möguleika á að fá starfsmenn frá útlöndum til að manna starfsemina.
Þetta er ekki eðlileg mönnun. Þetta er neyðarmönnun sem mun á endanum kosta mun meira en ef gert hefði verið ráð fyrir að manna starfsemina áfram inní sumarið með óbreyttan fjölda gjörgæslurýma og með fastráðnu starfsfólki.
3. Svigrúm vinnuveitenda til að veita 25% lengingu á sumarfrí sé það tekið utan sumarleyfistíma
Í samtölum við starfsfólk á gjörgæslunni varðandi þetta ákvæði var það skilningur flestra frá vinnuveitenda að þetta ákvæði yrði ekki virkjað í aðdraganda sumarsins þótt að lægi fyrir að fækka þyrfti gjörgæsluplássum og ekki væri búið að manna margar vaktir.
Í öllum kjarasamningum ríkisins við opinbera starfsmenn er nú ákvæði um lengingu á sumarfríi þess efnis að með skriflegri beiðni yfirmanns megi lengja þann hluta orlofs sem tekinn er utan sumarorlofstímabils um 25%. Í eldri kjarasamningum sömu aðila var þessi lenging sjálfkrafa.
Í aðdraganda sumarleyfa starfsmanna á Landspítala lá ekkert fyrir um það að stofnunin hygðist beita þessu ákvæði gagnvart starfsmönnum sem væru tilbúnir til að taka sumarleyfi sitt utan hefðbundins sumarorlofstíma. Þvert á móti lá ekkert annað fyrir en það að ekki stæði til að beita þessari heimild, sem eins og áður segir er nú heimildarákvæði en var áður sjálfvirkt ákvæði.
Hefðu starfsmenn vitað strax í vor að 25% umbun í lengd orlofs myndi fylgja ef starfsmenn væru tilbúnir til að færa sumarorlofstöku sína út fyrir hefðbundinn sumarorlofstíma tel ég að talsverðar líkur hefðu verið á því að fjöldi starfsmanna hefði verið til í að færa töku sumarorlofs síns. Þar með hefði fyrirfram mátt afstýra þeim mönnunarvanda sem upp kom þegar fjórða covid-bylgjan skall á í sumar.
4. Um sumarumbun
Við þær sérstöku aðstæður sem voru uppi í kjölfar COVID faraldurs síðasta árs og þann fjölda vakta sem ennþá voru ómannaðar á gjörgæslunum í aðdraganda sumars, tel ég að bónus á borð við „sumarumbun“ hefði geta breytt miklu í samhengi hlutanna. Talsverð óánægja ríkir á meðal starfsmanna hversu litlar álagsgreiðslur eru í núgildandi samningi og því hefði Landspítalinn fyrirfram átt að koma með tilboð um sumarumbun til að draga úr óþarfa álagstoppum sumarsins og hvetja þannig starfsmenn frekar til vinnu yfir erfiðasta tímabil sumarsins. Þetta hefði líklegast verið árangursríkasta leiðin til að halda fjölda gjörgæsluplássa óbreyttu í 13 gjörgæsluplássum yfir sumarið og um leið verið óbein álagsumbun til starfsmanna eftir erfiða 18 mánuði frá því að COVID faraldurinn skall á Ísland. Slíkt hefði haft mikil og eflandi áhrif á starfsanda gjörgæslustarfsmanna inní næsta vetur.
5. Um viðbótargreiðslu fyrir útköll lækna með stuttum fyrirvara
Síðastliðið vor ákvað Landspítalinn á versta mögulega tíma að draga tilbaka a.m.k. 15 ára túlkun í kjarasamningi lækna um viðbótargreiðslu væru þeir kallaðir á staðarvakt með minna en 24 klukkutíma fyrirvara. Frumkvæði að þessari einhliða aðgerð var Landspítalans án nokkurs samráðs eða samtals við Læknafélag Íslands. Gefur auga leið að þetta hleypti illu blóði í lækna. Málinu hefur því verið vísað til Félagsdóms af Læknafélagi Íslands. LÍ óskaði eftir að breytingu á áralangri framkvæmd yrði slegið á frest þangað til niðurstaða Félagsdóms lægi fyrir en Landspítalinn var ófáanlegur til þess og taldi engu skipta þótt alvarlegt ástand ríkti á bráðmóttöku Landspítalans fyrir sumarið, hvað varðar læknamönnun. Eins og alltaf rann læknum Landspítalans blóðið til skyldunnar, hvað sem leið óánægju með framkomu Landspítalans, og svöruðu kallinu þegar enn ein COVID bylgjan skall á Landspítalann í júlí. Læknar, eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafa stytt fyrirframákveðin sumarleyfi sín, breyta vöktum ítrekað með stuttum fyrirvara og manna viðbótarvaktir. Allt þetta gera þeir án þess að fá kjarasamningsbundna umbun fyrir og ekki verður ljóst hvort umbun þeirra verði nokkur önnur en sú viðbótarumbun sem Landspítalinn loksins bauð um mánaðarmótin júlí/ágúst. Niðurstaða félagsdóms mun ekki liggja fyrir fyrr en í haust. Þessi óútskýrða, einhliða og fyrirvaralausa kjaraskerðing af hálfu Landspítalans er köld kveðja til lækna sem ítrekað hafa staðið vaktina við erfiðar aðstæður síðustu misseri.
6. Um meinta fjölgun stjórnenda á Landspítalanum
Í nýlegri umfjöllun fjölmiðla kom fjöldi svokallaðra stjórnenda Landspítalans verulega á óvart, eða á bilinu 200-300. Á sama tíma hefur yfirstjórn Landspítalans margsinnis haldið fram að stjórnendum hafi fækkað síðustu ár. Rétt er að í kjölfar skipulagsbreytinga var klínískum framkvæmdastjórum fækkað úr 9 í 3. Á sama tíma var búið til nýtt lag tíu millistjórnenda svokallaðra forstöðumanna sem margir voru fyrrum framkvæmdastjórar. Staða nýs framkvæmdastjóra var svo nýlega búin til í skugga sparnaðaraðgerða og aðstoðarmaður forstjóra gerður að framkvæmdastjóra á skrifstofu forstjóra eftir stutt umsóknarferli. Samanlagður fjöldi klínískra stjórnenda (að meðtöldum framkvæmdastjóra á skrifstofu forstjóra) var því 9 fyrir skipuritsbreytinguna en 14 eftir breytinguna. Stjórnendum í efsta lagi Landspítalans hefur því fjölgað en ekki fækkað.
Raunfjöldi stjórnenda er á huldu og hverjir teljist til stjórnenda er óljóst í tölfræðilegri samantekt frá hagdeild Landspítalans. Fjöldi stjórnenda er gefinn upp sem hlutfall af heildarfjölda starfsmanna Landspítalans. Það gerir útilokað að sjá hver fjöldi þeirra er. Síðasta áratuginn hefur starfsmönnum Landspítalans fjölgað talsvert, líkt og stjórnendum í efstu lögum Landspítalans. Á sama tíma virðist yfirlæknum hafa fækkað mikið (tölur frá hagdeild Landspítalans), en þeir eru taldir til stjórnenda í samantekt hagdeildarinnar. Það kemur þó á óvart því hugtakið stjórnandi er í hugum flestra bundið við þá sem starfa við skrifborð en ekki umönnun sjúklinga. Fækkun yfirlækna, reiknast án efa inní fækkun stjórnenda síðustu ára, en gefur um leið bjagaða mynd af fjölda þeirra stjórnenda sem starfa við skrifborð. Hefur þeim fækkað eða fjölgað hlutfallslega? Inní tölum um stjórnendur Landspítalans eru verkefnastjórar ekki taldir með, störf þeirra eru mismunandi en aðeins lítill hluti þeirra kemur beint að umönnun sjúklinga. Verkefnastjórar eru nú 135 talsins og hefur fjölgað um 60% síðustu 10 ár samkvæmt upplýsingum frá hagdeild Landspítalans.
Virðingarfyllst
Theódór Skúli Sigurðsson
Formaður Félags sjúkrahúslækna
Svæfinga- og gjörgæslulæknir, Landspítalinn við Hringbraut
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga