Þróun og framfarir undanfarinna alda hafa bætt lífsskilyrði í heiminum. Framfarir í heilbrigðisvísindum hafa skilað aukinni þekkingu og bættri meðferð á mörgum sjúkdómum sem áður voru undantekningarlítið banvænir. Má þar t.d. nefna tilkomu sýklalyfja og meðferð við krabbameinum á síðari hluta 20. aldarinnar. Þó má fullyrða með vissu að engin uppfinning mannanna hafi verið eins árangursrík í að bæta lífsgæði og draga úr dánartíðni barna eins og bólusetningar. Með markvissum aðgerðum hefur tekist að útrýma mörgum lífshættulegum og skaðlegum sjúkdómum. Vissulega hefur framþróun bóluefna ekki alltaf verið áfallalaus en í veruleika nútímans þar sem kostnaður við allar aðgerðir læknisfræðinnar þurfa að vera vel ígrundaðar, er líklega ekkert inngrip eins kostnaðar-ábatasamt og ungbarnabólusetningar.
Með tilkomu bólusetninga hefur tekist að útrýma lömunarveiki, bólusótt, stífkrampa og barnaveiki á Íslandi. Verulega hefur dregið úr tíðni kíghósta og heilahimnubólgu af völdum baktería og fjölda einstaklinga með mislinga, rauða hunda eða hettusótt má nánast telja á fingrum sér. Þessi árangur er frábær!
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga