„Við höfum hitt stöku einstaklinga sem eru með þessi langvinnu einkenni mörgum vikum, jafnvel mánuðum, eftir að þau veiktust og náðu bata af bráðu einkennunum,“ segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður á lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir ekki hægt að fullyrða hvort eða hvenær fólkið muni snúa aftur í sitt fyrra horf.
„Það sem er mest áberandi af langvarandi einkennunum er orkuleysi,“ segir Runólfur við Fréttablaðið. Það beri á því að fólk missi bragð- og lyktarskyn, finni fyrir þróttleysi, höfuðverk, mæði og vöðvaverkjum. „Þetta er mjög áberandi eftir Covid-19, þrátt fyrir að margir nái skjótum bata eftir smit.“
Lesa má viðtalið við Runólf hér.
Í fréttinni segir einnig frá fimm hundruð manna Facebook hópnum „Við fengum covid“. Þar sögðust rúmlega hundrað manns upplifa þrálátan slappleika og orkuleysi í kjölfar veikinda sinna. Yfir áttatíu kváðust enn vera með brenglað bragð- og/eða lyktarskyn.
Runólfur lýsir veikindunum líkt og Magdalena Ásgeirsdóttir gerði í Læknablaðinu en dæmi eru um að fólk sem ekki lagðist inn á spítala þurfi endurhæfingu. „Fólkið sem fékk vægari lungnaeinkenni en glímdi við önnur einkenni, eins og vöðvamáttleysi, gríðarlega þreytu eða úthaldsleysi er nú að koma til okkar eitt af öðru í endurhæfingu,“ segir hún í Læknablaðinu.
Lesa má viðtalið við Magdalenu hér.
Mynd/Læknablaðið
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga