Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir það rangt að samningur Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna sé eins og „opinn krani“ fjárveitinga, líkt og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hélt fram í viðtali á RÚV í gær. Þvert á móti séu miklar takmarkanir á samningnum sem hafi hafi verið niðurnegldur til fimm ára, en hann rennur út núna um áramótin. Þórarinn segir það ekki stórmannlegt af ráðherra að skamma sérfræðilækna sem hafi komið íslenska heilbrigðiskerfinu til bjargar eftir hrun.
„Samningurinn sem við erum með er gerður af sjúkratryggingum og einstökum læknum í umboði heilbrigðisráðuneytisins. Hann er takmarkaður að mjög mörgu leyti. Í fyrsta lagi var ákveðið að það ættu að vera ákveðið margar einingar á honum í heild. Í öðru lagi þá er þetta einkaréttarsamningur þannig að læknar sem skrá sig á þennan samning mega ekki sjá neina aðra sjúklinga, enga sjúklinga sem borga sjálfir,“ segir Þórarinn um helstu takmarkarnir samningsins.
„Menn undirgangast það að sinna bara þessu starfi og engum öðrum sjúklingum fram hjá því. Í þriðja lagi þá er takmörkun á hverjum lækni. Ef hann vinnur meira en tíu þúsund einingar borgar hann fimmtíu prósent afslátt af því sem er umfram það. Það er því ekki hægt að vinna endalaust á þessum samningi öðruvísi en að gefa gríðarlega mikinn afslátt, sem borgar sig ekki.“
Viðtalið við Þórarinn er á mbl.is og má lesa það hér
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga