Endurskoða þarf greiðsluþátttökukerfið

„Það þarf einfaldlega að endurskoða allt greiðsluþátttökukerfið heildrænt,” segir Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur og sérfræðingur í hjartalækningum, á Facbook-síðu sinni. Þórarinn vísar þar á grein Gunnars Alexanders Ólafssonar heilsuhagfræðings á vefmiðlinum Kjarnanum sem segir að alltof há mörk séu í greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Kerfið sé óþarflega flókið.

Þórarinn segir ábendingar Gunnars margar góðar og réttmætar. „Það má þó benda á enn fleiri vankanta á núverandi kerfi, t.d. að sjúklingar sem eru meira veikir og þurfa á þjónustu sérfræðilæknis á stofu að halda greiða að meðaltali 70% eða meira af kostnaðinum meðan kostnaðarhluti þeirra sem eru minna veikir og fá úrlausn á heilsugæslunni er vel undir 10%.“

Þórarinn segir að þannig sé sjúklingum mismunað svo að þeir veikari borgi mikið meira. Það eigi líka við börn, öryrkja og ellilífeyrisþega.

Gunnar segir í grein sinni að lækkun á greiðslu­þátt­töku sjúk­linga í nýju fjár­laga­frum­varpi með því að bæta 800 m.kr. við fjár­laga­lið­inn sé ánægjuleg en gangi of skammt. „[H]á­marks­þak fyrir almenna heil­brigð­is­þjón­ustu og lyf eru 137 þús­und krónur á 12 mán­aða tíma­bili. Það er alltof há fjár­hæð fyrir þá sem hafa úr litlu að spila.“

Gunnar segir að við búum við of mörg mis­mun­andi greiðslu­þátt­töku­kerfi í heil­brigð­is­þjón­ustu. „Eitt kerfi fyrir almenna heil­brigð­is­þjón­ustu, annað kerfi fyrir lyf, þriðja kerfi fyrir sál­fræði­þjón­ustu (reyndar á að setja kostnað við sál­fræði­þjón­ustu inní almenna greiðslu­þátt­töku­kerf­ið), fjórða kerfið fyrir tann­lækn­ing­ar, fimmta kerfið fyrir tann­rétt­ing­ar, sjötta kerfið er til­vís­una­kerfi fyrir börn og til við­bótar eru fleiri kerfi fyrir aðra þætti heil­brigð­is­þjón­ustu (eins og tækni­frjóvg­anir og lýta­lækn­ing­ar). ­Nauð­syn­legt er að að ráð­ast í almenna upp­stokkun á þessum kerfum og fækka þeim og sam­ræma á þann hátt, að þau verði gegn­særri og skil­virk­ari líkt og ann­ars staðar á Norð­ur­lönd­um.“

Mynd/Læknablaðið

Lesa má greina hans Gunnars hér.