Það er álit starfshóps, sem skipaður var af Læknafélagi Íslands, að yfirfærsla leghálsskimana til opinberra aðila frá frjálsum félagssamtökum, þar sem hún hafði verið í meir en hálfa öld og þar sem náðst hafði eftirtektarverður árangur, var ekki vel rökstudd, ekki vel framkvæmd og tókst ekki sem skyldi á árinu 2021.
Aðdragandi málsins er sá að í júní 2020 fékk Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins það verkefni frá heilbrigðisráðherra að framkvæmd leghálskrabbameinsskimunar skyldi vera í þeirra höndum en hún hafði þá verið í meir en 50 ár hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi yfirlæknir á Kvennadeild Landspítalans, prófessor og formaður starfshópsins sagði á blaðamannafundi fyrr í dag (29.3.) að hópurinn hefði þurft að reyna að átta sig á því hvar eitthvað hefði farið úrskeiðis.
„Þarna var bara ekki nægur tími til þess að gera þetta allt saman af því það var lögð svo mikil áhersla á að keyra í gegn umbreytinguna,“ segir Reynir og bætir við: „Það var enginn sem steig á bremsuna.“
Sjá frétt á mbl.is: Enginn sem steig á bremsuna
Sjá einnig frétt í Morgunblaðinu : Færsla skimana ekki vel rökstudd
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga