Valfrelsi tekið af sjúklingum - Stefán með grein í Morgunblaðinu

„Það er merkilegt að ráðherra heilbrigðismála skuli í miðjum heimsfaraldri hafa áhuga á að svipta sjúklinga rétti til valfrelsis til heilbrigðisþjónustu, rétti til endurgreiðslu og nota tækifærið og flytja þjónustu sem nú þegar er vel sinnt inn á spítalann, sem mér skilst að hafi nú þegar nóg með sig. Hvaða innræti er þetta?,“ ritar Stefán E. Matthíasson læknir í Morgunblaðinu í dag um drög að nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra „sem á þó einvörðungu að ná fram yfir kosningar í haust!“

Hann bendir á að þar eru gerðar ýmsar kröfur til lækna sem veita þjónustuna, án nokkurs gildandi samningssambands við SÍ, um forsendur þess að sjúklingar sem til þeirra leiti fái endurgreiðslu. „Þannig er verið að hóta þessum sjúklingahópi að svipta þá tryggingaréttinum ef samningslausir læknar fari ekki að vilja ráðherrans. Kröfur ráðherrans eru merkilegar,“ segir hann og bætir við.

„Ekki verði heimilt að endurgreiða reikninga vegna heilbrigðisþjónustu þar sem aukagjöld eru umfram gömlu gjaldskrá SÍ. Þetta gæti nú ráðherrann auðveldlega lagað með því að uppfæra einingaverð sitt til raunkostnaðar! Annað er enn kostulegra sem er að læknum sem sinna sjúklingum og eru ekki í neinu samningssambandi við SÍ beri að skila inn árlega endurskoðuðum ársreikningum til stofnunarinnar. Eitthvað sem ég verða að segja er alger nýlunda í opinberri stjórnsýslu á Íslandi og auðvitað lögleysa.“

Svo nefnir hann sem rúsínuna í pylsuendanum. „Með tilkynningu ráðherrans fylgir að hún hafi sent SÍ bréf þar sem hún feli stofnuninni að meta á einhvern ónefndan hátt hvaða verk sérfræðilækna verði tilvísanaskyld til framtíðar en að auki að grisja gjaldskrá þeirra og fella brott verk sem betur væru sett innan „opinberra stofnana“.“

Áður en að þessum orðum kemur rekur Stefán hvernig heilbrigðiskerfið hér á landi hafi þróast síðustu ár í Morgunblaðinu í dag. „Undanfarna tvo áratugi hefur sjúkrahúsþjónustan færst á eina hendi. Hér voru á höfuðborgarsvæðinu fjórir spítalar; í Hafnarfirði, Landakoti, Borgarspítali og Landspítali. Nú er einn spítali og merki fákeppni á þessum markaði æ ljósari,“ segir hann um leið og hann bendir á að þjónustan hafi byggst á þremur meginstoðum um langan aldur: Heilsugæslunni, sjúkrahúsi og sérfræðilæknisþjónustu sem rekin er af læknum og fyrirtækjum þeirra. „Skipulag sem nágrannar okkar hafa öfundað okkur af.“ Núverandi ríkisstjórn hafi aukið framlög til heilbrigðismála umtalsvert en undir forystu sitjandi heilbrigðisráðherra hafi þess verið gætt að þessir fjármunir renni að meginhluta til þjónustu sem rekin er af opinberum aðilum.

„Fyrir nokkrum árum voru heildarframlög til sérfræðilæknisþjónustu um 6-7% af heilbrigðisútgjöldum en árið 2019 einungis 4,7% og margt bendir til að sama tala fyrir 2020 sé 4%. Komur til sérfræðilækna eru á pari við komur á Landspítala og heilsugæsluna en að auki eru þar allt að 20 þúsund skurðaðgerðir, þúsundir speglana, myndgreiningarannsókna, blóðrannsókna auk ýmissa annarra.“

Núverandi kerfi hafi verið opið og sjúklingum gert kleift að ferðast milli þjónustustiga með eða án tilvísunar þótt flestir fari síðari leiðina. „Um þetta val hefur ríkt ánægja sjúklinga sem og heilbrigðisstarfsmanna. Valfrelsi sjúklinga og sjálfsákvörðunarréttur virtur. Nýjustu bráðabirgðatölur frá SÍ benda til að komum til sérfræðilækna hafi farið fækkandi sl. tvö ár. Nokkuð sem mátti búast við með eflingu heilsugæslunnar. Samningar við sérfræðilækna hafa verið lausir frá 2018. Þrátt fyrir mikla vinnu Læknafélags Reykjavíkur og ótal samningafundi við samningaborð SÍ öll þessi ár verður að segjast að samningsvilji handan borðsins hefur verið afar takmarkaður sem endurspeglar að ég tel metnaðarleysi sitjandi heilbrigðisráðherra og viðhorf ráðherrans til þessarar mikilvægu þjónustu,“ segir hann.

„Á meðan hefur ráðuneytið gefið út endurgreiðslureglugerð til að tryggja sjúklingum endurgreiðslu frá SÍ vegna þjónustunnar. Þessar reglugerðir hafa verið endurnýjaðar á nokkra mánaða fresti. Læknar hafa fallist á beiðni frá SÍ um að senda rafrænar kvittanir til SÍ til að auðvelda sjúklingum endurgreiðslu. Þetta atriði er á gráu svæði og líklega brot á bókhaldslögum að mati frómra lögmanna. En ekkert samningssamband hefur í raun verið í gildi milli SÍ og sérfræðilækna frá 2018. Rétt bókhaldsleg málsmeðferð hefði átt að vera að sjúklingar greiddu allan kostnað en sæktu sjálfir endurgreiðslu til SÍ. Í endurgreiðslureglugerðum hefur ráðherra einhliða ákvarðað einingaverð á hverjum tíma. Þetta einingaverð ráðherrans hefur ekki fylgt verðlagsþróun og því hafa læknar og fyrirtæki þeirra neyðst til að bæta upp þennan mun með komugjöldum sem eru misjöfn eftir eðli og umfangi verka,“ segir hann. Núverandi endurgreiðslureglugerð falli úr gildi í lok þessa mánaðar.

Myndir/Skjáskot/Morgunblaðið