Þórólfur sagði svo í Morgunblaðinu í dag að það sé áhyggjuefni hve mörg sýni séu tekin á landamærunum en yfir 2.000 sýni hafa verið tekin þar daglega síðustu tvo daga, eða umfram það viðmið sem lagt var upp með að heilbrigðiskerfið gæti annað þegar skimun hófst.
„Þetta [2.000 sýna viðmið] er ekki alveg heilög tala, eins og Landspítalinn hefur sjálfur bent á. Undanfarna daga hefur verið farið yfir þessa tölu sem er ákveðið áhyggjuefni, en ég hef ekki heyrt neinar kvartanir frá Landspítalanum enn sem komið er,“ segir Þórólfur.
Þeir átta einstaklingar sem greindust með innanlandssmit í fyrradag voru með smit af sama stofni og áður. Smitin voru því af annarri hópsýkingunni sem er í gangi í samfélaginu. Þetta hefur mbl.is eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalæknir. Fimm hafi verið í sóttkví við greiningu.
Íslensk erfðagreining skimaði á Akranesi. Enginn greindist og því tali að hópsmitið þar hafi verið einangrað. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir við mbl.is að skimun fyrirtækisins vegna kórónuveirunnar verði enn markvissari en áður. Hætt verði að taka slembiúrtök og þess í stað verði hópar fólks sem tengjast þeim sem hafa smitast í annarri hópsýkingunni sem er í gangi í samfélaginu skimaðir.
Haft er eftir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, á Vísi að vinna við nýtt spálíkan sé í þann mund að hefjast. Nú sé verið að meta stöðuna og fara yfir gögn. Líklegt sé að faraldurinn sé að fara af stað aftur og svokölluð „önnur bylgja“ að hefjast. Sjálfur bjóst hann við því að ný bylgja smita myndi koma upp seinna hér á landi.
Sagt er frá því að spálíkanið sé unnið í samstarfi við sóttvarnalækni. Það spáir fyrir um líklega þróun Covid-19 hér á landi.
Mynd/Skjáskot/Mbl.is
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga