Formaður Læknafélagsins lýsir yfir áhyggjum af bráðamóttökunni

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, lýsir yfir áhyggjum af stöðunni á bráðamóttöku Landspítala. Hann tekur þar undir orð Vilhjálms Ara Arasonar, læknis og fulltrúa félagsins í sótt­varn­aráði fyr­ir hönd Lækna­fé­lags Íslands. Vilhjálmur segir á fréttamiðlinum mbl.is ástandið á bráðamóttöku spítalans aldrei hafa verið verra. Hann hafi áhyggjur af smithættu á biðstofum spítalans.

„Við í Læknafélagi Íslands höfum miklar áhyggjur af stöðunni á Landspítala,“ segir Reynir. „Bæði af stöðunni á bráðmóttökunni en líka og ekki síður að fólk sé að draga læknisheimsóknir á langinn, seinkun nauðsynlegra skurðaðgerða og lengri biðlistum.“ 

Hann segir að standa þurfi við yfirlýsingar um að styrkja og efla heilbrigðiskerfið. Það þurfi fjármagn til þess. Þá þurfi að einhverju leyti að endurskipuleggja, færa til verkþætti og verkefni innan þess, til að dreifa álaginu.  Meðal annars til að Landspítali og heilsugæslustöðvar geti sinnt verkefnum sínum og unnið upp halann sem hafi myndast undanfarið.  

„Vel hefur tekist til með samvinnu Íslenskrar erfðagreiningar og sýkla- og veirufræðideildar sem gæti orðið fyrirmynd á ýmsum öðrum sviðum,“ segir Reynir. „Til dæmis að öll sýnataka vegna COVID-19 færðist á einn stað og létti þannig álagi af heilsugæslustöðvum,“ segir hann. „Eins væri hægt að semja um bráðamóttöku smáslysa og létta á aðflæði að spítalanum.“ 

Vilhjálmur segir í viðtali við mbl.is að aðstaðan til að sinna slösuðum og veik­um sé að mörgu leyti miklu verri en hún hafi verið fyr­ir COVID-19. „Rætt var um að það ætti að nýta tím­ann til þess að styrkja heil­brigðis­kerfið til þess að tak­ast á við vand­ann sem fylg­ir COVID en það eina sem ég sé að hafi verið gert er til­koma COVID-19 göngu­deild­ar. Aðstæður þar sem ég vinn á bráðamót­töku hafa aldrei verið verri gagn­vart veiku og slösuðu fólki,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.