„Í Fréttablaðinu í morgun dregur þú lækna inn í umræðu um niðurskurð ykkar stjórnmàlamanna á þjónustu Landspítalans á hættutímum og reynir að varpa ábyrgðinni á að komið hefði verið til móts við lækna í kjaramálum. Þetta eru trumpískar falsfréttir,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins í tölvupósti til Willum Þórs Þórssonar, formanns fjárlaganefndar Alþingis.
Reynir birtir viðbrögð sín á Facebook-síðu Læknafélagsins. Reynir bendir Willums á að ekki hafi verið samið við lækna Landspítalans og þeir verið samningslausir í 21 mánuð.
„Laun þeirra [hafa] ekki breyst síðan um mitt ár 2018. Læknar hafa sýnt fyllstu ábyrgð og trúmennsku og sinnt störfum sínum þrátt fyrir að hafa verið samningslausir þennan tíma og ekki vikið sér undan ábyrgð. Hafa unnið í hættu- og neyðarstigi spítalans og sumir veikst við skyldustörf meða þið þingmenn kúrið undir pilsfaldi í stað þess að axla ábyrgð á vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins,“ segir Reynir.
„Legg til að þú leiðréttir málflutning þinn og biðjist afsökunar á þessu frumhlaupi og árás á kollega okkar og samstarfsfólk, hjúkrunarfræðinga sem eiga annað og betra skilið af ykkur stjórnmálamönnum,“ bætir hann við að lokum.
Willum Þór segir í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag að fjármagn hafi verið aukið verulega til Landspítala á kjörtímabilinu. Engu að síður hafi uppsafnaður halli verið frá árinu 2017. Hann flytjist samkvæmt lögum á milli ára. Það sé á höndum ráðherra og forstjóra spítalans að finna út úr því í sameiningu hvernig takast eigi á við hallann. Breyta þurfi skipulagi og vöktum á spítalanum til þess að mæta vandanum. „Það vill enginn draga úr þjónustunni,“ segir Willum í fréttinni.
Willum segir hluta vandans þann að komið hafi verið til móts við lækna og hjúkrunarfræðinga í kjaramálum. „Vitaskuld eru laun og verðlagsbætur stór hluti af þessu,“ er haft eftir Willum í fréttinni.
Hér má lesa Fréttablaðið.
Lesa frétt Stundarinnar.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga