Forseti Íslands á Læknadögum

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður gestur Læknadaga. Forsetinn talar á málþingi um ofkælingu miðvikudaginn 20. janúar. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, verður einnig á þinginu og opnar málþing um áföll og streitu á fyrsta degi þingsins á mánudag, 18. janúar.

Málþingið sem forsetinn tekur þátt í ber yfirskriftina Ofkæling: Hvað gerist, tilfelli og meðferð. Fundarstjóri er Elsa Björk Valsdóttir. Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir, lýsir tilfelli og skipuleggur málþingið.

„Forsetinn stundar sjósund,“ segir Kristín. Hún hvetur lækna til þess að sitja málþingið enda lýsi sjósundsiðkenndur mjög misvísandi viðbrögðum lækna þegar sundið beri á góma. „Sumir segja að læknirinn þeirra segi sundið sniðugt og að þeir sjái batann. En ég heyri einnig í öðrum sem segja lækninn sinn segja að þeir megi ekki fara.“ Iðkendurnir hlusti ekki endilega á þau ráð en haldi því frekar leyndu fyrir lækninum að þeir stundi enn sjósund. 

Kristín segir því gott fyrir lækna að vita meira um sjósundið og nýjustu upplýsingar um það. Einnig hvernig fólk undirbúi sig best og byggi upp þol. „Það hendir sér ekki allt í einu úti heldur fer af rólega af stað, hlustar á líkamann sinn og sýnir skynsemi,“ segir hún. 

„Okkur var ekki ætlað sem manndýrum að vera í upphituðu húsnæði, fara á milli í upphituðum bílum og vera alltaf í hlýjum og góðum fötum. Við erum gerð með mörgum kerfum til að þola alls konar aðstæður.“

 

Norðurljós: 

13:10-16:10  OFKÆLING OG SJÓSUND – HVAÐ GERIST, TILFELLI OG MEÐFERÐ
                       Fundarstjóri: Elsa Björk Valsdóttir 

13:10-13:20  Opnun: Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson

13:20-13:50  Tilfelli: Kristín Sigurðardóttir 

13:50-14:20 Tilfelli: Felix Valsson 

14:20-14:50 Bráðameðferð: Éric Contant 

Kaffihlé 

15:10-15:40 Sjósund og Wim Hof: Sölvi Tryggvason, BA sálfræði, fjölmiðlamaður

15:40-16:10 Kuldinn gælir við okkur innan sem utan: Hvað segja vísindin? Björn Rúnar Lúðvíksson

Ásmundur Einar opnar þingið um áföll og streitu í stað Ölmu D. Möller landlæknis sem forfallast.  Ráðherrann hefur látið til sín taka í ráðuneytinu. Hann opnaði sig um áfallareynslu sína í viðtali við Morgunblaðið í nóvember og kynnti í kjölfarið frumvarp um stórfelldar breytingar á aðbúnaði barna: 

„Við vilj­um skapa börn­um þær aðstæður að þau fái að vera börn. Að aðstoð komi áður en allt er farið á versta veg,” sagði hann í viðtalinu við Guðrúnu Hálfdánardóttur í Morgunblaðinu.

 

09:00-12:00 ÁFÖLL OG STREITA – FYRRI HLUTI 

Fundarstjóri: Pálmi Óskarsson

09:00-09:10 Opnun: Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra

09:10-09:50 Seigla og streita: Kristín Sigurðardóttir 

09:50-10:10 Hvatberar fyrir orku og heilsu: Lilja Kjalarsdóttir, lífefnafræðingur

10:10-10:30 Litróf lífsins (Polyvagal kenning/kynning): Kristín Sigurðardóttir

Kaffihlé

11:00-11:30 Heilaheilsa: Ingvar Hákon Ólafsson 

11:30-12:00 Betri í dag en í gær: Guðmundur F. Jóhannsson Málþing á vegum „Hver hugar að heilsu þinni“ hópsins

 

13:10-16:10 ÁFÖLL OG STREITA – SEINNI HLUTI 

Fundarstjóri: Anna María Jónsdóttir 

13:10-13:40 Langtímaafleiðingar áfalla og streitu: Margrét Ólafía Tómasdóttir 

13:40-14:10 Að ala sig upp aftur: Gyða Dröfn Tryggvadóttir, lýðheilsufræðingur og meðvirkniráðgjafi 

Kaffihlé

14:40-15:00 „Ekki spyrja hvað er að þér, heldur hvað kom fyrir þig“. Kynning á kenningum Bessel Van Der Kolk: Anna María Jónsdóttir 15:00–15:30 Eggið, hænan og ungarnir: Erla Gerður Sveinsdóttir 

15:30-15:45 Hugleiðsla: Laufey Steindórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, jóga- og hugleiðslukennari 15:45-16:10 

Pallborðsumræður: Benedikt Sveinsson, Erla Gerður Sveinsdóttir, Guðmundur F. Jóhannsson og Margrét Ólafía Tómasdóttir Málþing á vegum Félags ísl. heimilislækna. 

Skráning á Læknadaga sem haldnir verða í 18. - 22. janúar 2021 stendur enn yfir. Þegar hefur fjöldi lækna tryggt sér aðgang að ráðstefnunni og geta horft á málþingin í allt að mánuð eftir að þeim lýkur. Málþingin eru mæld í tugum, eða yfir 30 auk hádegisfyrirlestra. Vel yfir 130 manns taka þátt í umræðum og halda fyrirlestra. Aðgangseyrir er 30 þúsund og fá læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk miða á tix.is.

Læknadagar 2021 verða rafrænir í ár vegna Covid-19. Fræðslustofnun lækna hefur samið við Advania um utanumhald viðburðarsíðu sem geymir skráningu, útsendingu dagskrár og sýningarsvæði fyrir lyfjafyrirtæki. Tæknimenn Hörpu sjá um útsendinguna sem verður úr þremur sölum, Norðurljósum, Kaldalóni og Rímu.

Mynd/skjáskot/forseti.is

Dagskrá Læknadaga