„Það var svo eitt sinn að mig dreymdi um að verða læknir. Sá marga kosti við það, en svo fór sem fór, og hér er ég samt,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem sagði frá sjósundsiðkun sinni á Læknadögum, kosti þess og þá aðgát sem verði að sýna, á Læknadögum 2021.
Forsetinn hvatti til frekari forvarna í samfélaginu. „Ég er sannfærður um að við þurfum að sinna þessum þáttum enn betur en áður; lýðheilsu, geðheilsu, forvirkum aðgerðum á sviði heilbrigðis og heilsufars.“ Það hafi ekki aðeins áhrif á lífsgæðin að verja fé til forvarna heldur einnig hafi það hagkvæmt gildi. „Hér er ótvírætt að breytingar hefðu þegar á heildina á litið, þegar til kastanna kemur, sparnað í för með sér.“
Forsetinn talaði á málþinginu Ofkæling: Hvað gerist, tilfelli og meðferð, miðvikudaginn 20. janúar. Einnig fluttu þau Kristín Sigurðardóttir, Felix Valsson, Björn Rúnar Lúðvíksson, Éric Contant frá Kanada auk Sölva Tryggvasonar erindi á málþingi. Hægt verður að sjá erindi forsetans í heild sinni hér á næstunni.
Margrét Aðalsteinsdóttir, starfsmaður Fræðslustofnunar lækna og Læknafélagsins, segir þátttökuna á Læknadögum 2021 hafa farið „langt framúr væntingum okkar.“ Rétt um 900 þátttakendur hafi verið skráðir til leiks, langflestir læknar en einnig læknanemar og annað heilbrigðisstarfsfólk. Ráðstefnan var í fyrsta sinn rafræn vegna heimsfaraldursins. Almenn ánægja var með rafrænu umgjörðina.
„Skráðir þátttakendur geta nú horft á alla fyrirlestrana inná ráðstefnusíðunni og þurfa því ekkert að velja og hafna,“ segir hún en fyrirlestrarnir verða aðgengilegir næstu fjórar vikur.
Ráðstefnan var send út frá Hörpu dagana 18. til 22. janúar og hélt sér heimasíða utan um hana. Málþingin eru mæld í tugum, eða yfir þrjátíu auk hádegisfyrirlestra. Vel yfir 130 tóku þátt í umræðum og halda fyrirlestra.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga