Fóru ekki að lögum um Landspítala

Níu manna ráðgjafarnefnd Landspítala, sem á að vera stjórn spítalans til samráðs og stuðnings í stefnumótun og almennu starfi hans, hefur ekki verið starfandi síðan 2011 þrátt fyrir skýr fyrirmæli um það í lögum um heilbrigðisþjónustu.

Fyrri heilbrigðisráðherrar hafa trassað að skipa í nefndina. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er skýrt kveðið á um að ráðherra heilbrigðismála skuli skipa þessa níu manna nefnd til fjögurra ára í senn. Nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans.

Svandís Svavarsdóttir, núverandi heilbrigðisráðherra, hefur í hyggju að endurvekja nefndina og mun skipa í hana innan fárra daga. „Það er dýrmætt fyrir spítalann að geta sótt þekkingu og stuðning sem víðast í samfélaginu. Ráðgjafarráðið var í lögum hugsað til þess og mikilvægt að setja það á stofn í samræmi við lög. Ég vænti þess að spítalinn njóti góðs af því, ekki síst í stefnumótun sinni,“ segir Svandís. 


Sjá frétt á visir.is