Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2023 var haldinn í Kópavogi 20. október sl. Kjörnir aðalfundarfulltrúar voru 78 og mættu þeir flestir til fundarins. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, ávarpaði aðalfundargesti og svaraði fjölda fyrirspurna.
Í stjórn LÍ starfsárið 2023-2024 verða: Steinunn Þórðardóttir, formaður, sem var sl. vor endurkjörin formaður til næstu tveggja ára, Sólveig Bjarnadóttir og Teitur Ari Theodórsson frá Félagi almennra lækna, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Oddur Steinarsson frá Félagi ísl. heimilislækna, Magdalena Ásgeirsdóttir og Theódór Skúli Sigurðsson frá Félagi sjúkrahúslækna og Katrín R. Kemp Guðmundsdóttir og Ragnar Freyr Ingvarsson frá Læknafélagi Reykjavíkur. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
Á aðalfundinum voru samþykktar átta ályktanir til stjórnvalda um málefni sem snerta heilbrigðismál.
Ályktun um stöðu heilbrigðismála óskar eftir því að íslensk stjórnvöld endurskoði heildarskipulag og starfsemi heilbrigðiskerfisins án tafar og bregðist við þeim áskorunum sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir. Þeirri vinnu verði Læknafélag Íslands að koma að, eins og félagið hefur margsinnis kallað eftir á liðnum árum. Sjá ályktun
Ályktun um mönnum lækna skorar á ríkisstjórnina að hefja tafarlaust vinnu við að fjölga læknum, bæta vinnuaðstöðu og draga úr óhóflegu vinnuálagi. Sjá ályktun
Ályktun um aðgerðir til að minnka skaðleg áhrif áfengisneyslu í íslensku samfélagi og þar með bæta heilsu og félagslega stöðu einstaklinga, fjölskyldna og samfélagsins alls skorar á alþingismenn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka skaða af áfengisneyslu, sem sé forgangsverkefni í lýðheilsu Íslendinga. Þar sé stýring á aðgengi að áfengi sterkasta vopnið. Aukið aðgengi að áfengi eins og netverslun og heimsending muni valda enn meiri skaða. Sjá ályktun
Ályktun um nikótínpúða vekur athygli heilbrigðisráðherra á þeirri heilsufarsvá sem nikótínpúðar eru á markaði í dag. Brýnt sé að setja reglugerð sem banni sölu og innflutning á nikótíni í púðum, vökvum eða öðru formi með bragðefnum. Sjá ályktun
Ályktun um nikótínvörur skorar á heilbrigðisráðherra og alla þingmenn að beita sér fyrir að fella allar vörur sem innihalda nikótín, aðrar en lyf, undir tóbaksvarnarlög. Það styrki umgjör sölu þessara vara og minnki líkur á að fyrri árangur í tóbaksvörnum glatist. Sjá ályktun
Ályktun varðandi bætta réttarstöðu lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna og öryggi sjúklinga hvetur Alþingi til að staðfesta breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga varðandi refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika. Sjá ályktun
Ályktun um Sjúkrahúsið á Akureyri fer fram á að stjórnvöld tryggi fjárveitingar til Sjúkrahússins á Akureyri svo að hægt sé að styrkja faglega stöðu sjúkrahússins sem varasjúkrahúss landsins og miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi. Sjá ályktun
Ályktun um viðvarandi lyfjaskort og undanþágulyf kallar eftir aðgerðum vegna viðvarandi lyfjaskorts og til að tryggja öryggi sjúklinga. Þar segir að ítrekað hafi komið upp sú staða að nauðsynleg lyf eru ekki fáanleg, hafi ekki markaðsleyfi á Íslandi eða hafi ekki verið markaðssett af lyfjafyrirtækum hérlendis. Það sé óviðunandi ástand. Kallað er eftir raunhæfum aðgerðum til að koma í veg fyrir lyfjaskort og til að knýja fram markaðsleyfi fyrir nauðsynleg og mikið notuð lyf. Aðalfundurinn telur jafnframt að sama ábyrgð skuli gilda um öll lyf á Íslandi óháð því hvort þau séu með undanþáguskráningu eða á skortslista Lyfjastofnunar. Þannig skuli víkja úr lyfjalögum ákvæðum um viðbótarábyrgð lækna við ávísun undanþágulyfja enda sé það ekki í valdi læknis að tryggja aðgengi og skráningu á nauðsynlegum lyfjum. Sjá ályktun
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga