Geta ekki unnið vinnuna sína án ljósmæðra

Sérfræðilæknar Kvennadeildar Landspítalans hafa miklar áhyggjur af ljósmæðradeilunni, enda virðist engin lausn í sjónmáli. Læknarnir sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem kemur fram að næstu vikur verði erfiðar og fækkunin muni strax segja til sín í minni þjónustu.

„Við læknarnir getum nefnilega ekki unnið vinnuna okkar án ljósmæðra, svo einfalt er það. Samstarf okkar er mjög mikið og náið og við treystum á þær og þær á okkur. Þó að við reynum að láta öryggi fæðandi kvenna ganga fyrir með þeim mannafla sem við höfum vitum við að störf ljósmæðra snúast um svo miklu meira en að taka á móti börnum.“

Benda fæðinga- og kvensjúkdómalæknarnir á að umönnun þungaðra kvenna og sængurkvenna, að sinna brjóstagjöf og fylgjast með nýburum, er fyrst og fremst í höndum ljósmæðra.

„Þessi störf geta stundum beðið en alls ekki alltaf. Við verðum að geta treyst á að þessir mikilvægu samstarfsmenn okkar séu til staðar. Annars mun starfsemin smám saman lamast.“ 

Sjá nánar frétt á visir.is