Formaður LÍ sendi eftirfarandi bréf í dag til forstjóra heilbrigðisstofnana, Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins:
"Hinn 1. janúar nk. bætast við lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ákvæði til bráðabirgða, sem fela í sér að heimilt er að ráða til árs í senn heilbrigðisstarfsmenn sem náð hafa 70 ára aldri. Í heimildinni felst að framvegis verður heimilt að ráða m.a. lækna til starfa eftir sjötugt á sömu ráðningarkjörum og þeir nutu fyrir sjötugt. Fyrir þessa lagabreytingu var einungis unnt að ráða lækna til starfa eftir sjötugt sem verktaka eða á svokallaða tímavinnusamninga sem eru verulega lakari en hefðbundin ráðningarkjör.
Ein helsta athugasemd Læknafélags Íslands (LÍ) við þessi áform voru þau að ákvæðið skyldar heilbrigðisstofnanir ekki til að greiða þessum hópi lögboðið 11,5% lífeyrissjóðsframlag. Einungis er gert ráð fyrir að þessi hópur geti haldið áfram að greiða í séreignalífeyrissjóð.
Því miður var ekki hlustað á athugasemdir LÍ og raunar fleiri. Í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar segir um þetta efni (sjá: https://www.althingi.is/altext/153/s/1872.html).
Í frumvarpinu er ekki sérstaklega kveðið á um meðferð iðgjalds til skyldutryggingar lífeyrisréttinda þeirra heilbrigðisstarfsmanna ríkisins sem starfa áfram eftir 70 ára aldur. Fram kemur í greinargerð að frá 70 ára aldri falli skyldubundið lífeyrisiðgjald launagreiðanda vegna launþega niður, en launþegi geti kosið að greiða enn iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar. Er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um slíkar greiðslur og mótframlag launagreiðanda þó að starfsmaður hafi náð 70 ára aldri. Með þessu gefist heilbrigðisstarfsfólki sem náð hefur 70 ára aldri tækifæri til að starfa áfram, fresta lífeyristöku og safna auknum viðbótarlífeyrisréttindum í séreignarsjóð með tilheyrandi mótframlagi.
Í umsögnum sem bárust nefndinni kom fram að í ljósi þess að skyldubundið lífeyrisiðgjald launagreiðanda fellur niður við 70 ára aldur njóta þeir sem kjósa að vinna fram yfir þann aldur lakari kjara en þeir sem yngri eru. Í greinargerð kemur fram að flestir þeir sem frumvarpið varðar greiði skylduiðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en samkvæmt samþykktum sjóðsins er framlag launagreiðanda að lágmarki 11,5% af gjaldstofni. Meiri hlutinn bendir á að jafnan er kveðið á um iðgjaldshluta launamanna og mótframlag launagreiðanda í kjarasamningum og eftir atvikum í samþykktum lífeyrissjóða og um meðferð lífeyrissjóðs á mótteknu iðgjaldi eftir 70 ára aldur í samþykktum lífeyrissjóða. Þannig virðast nokkuð ólíkar reglur gilda um meðferð iðgjaldagreiðslna eftir að sjóðfélagi hefur náð 70 ára aldri. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn ekki forsendur fyrir því að kveða sérstaklega á um meðferð iðgjalda vegna heilbrigðisstarfsmanna sem starfa við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir eftir 70 ára aldur í lögum. Meiri hlutinn telur þó nauðsynlegt að beina því til stjórnvalda að vinna með aðilum vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðum að lausn á þeim álitamálum sem kunna að skapast við meðferð og ráðstöfun mótframlags launagreiðanda þegar starfsmenn vinna fram yfir 70 ára aldur. Brýnt er að niðurstaða fáist í þeim álitamálum sem fyrst enda er það liður í að tryggja aukinn sveigjanleika að því er snertir starfslok hjá hinu opinbera. (Leturbreyting LÍ.)
LÍ er ekki kunnugt um að stjórnvöld hafi brugðist við tilmælum velferðarnefndar. Nú háttar svo til að að gagnvart læknum þarf engin sérstök viðbrögð. Þorri lækna hefur alla sína starfsævi greitt lífeyrisiðgjald sitt til Almenna lífeyrissjóðsins. Sá sjóður leyfir áframhaldandi greiðslu 11,5% framlags launagreiðanda eftir að 70 ára aldri er náð en framlagið fer þá í séreignarsjóð viðkomandi læknis. 2
LÍ telur útilokað annað en að þær heilbrigðisstofnanir sem kjósa að ráða lækna til starfa eftir sjötugt, samkvæmt þessari nýju heimild, haldi áfram að greiða 11,5% lífeyrisiðgjald af launum þeirra, enda ekkert sem bannar að svo verði gert hvað þennan hóp snertir. Þetta lífeyrisiðgjald rennur þá í séreignarsjóð viðkomandi læknis eins og áður greinir og viðkomandi læknir nýtur að fullu sömu launakjara og hann naut áður en hann varð sjötugur.
LÍ vill með bréfi þessu koma þeirri afstöðu sinni á framfæri við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og aðrar heilbrigðisstofnanir að það mun ráðleggja sínum félagsmönnum, sem náð hafa þessu aldursmarki, að ráða sig ekki til starfa eftir sjötugt nema að launagreiðandi greiði þeim tilgreint 11,5% lífeyrisiðgjald af launum eftir 70 ára aldur."
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga