Harmar verði sjúklingar sviptir sjúkratryggingarétti sínum

„Verði reglugerð ráðherra sett verða allir mínir sjúklingar sem skipta hundruðum sviptir sínum sjúkratryggingarétti,“ segir Anna Björnsdóttir, sérfræðilæknir í Parkinson og hreyfiröskunarsjúkdómum í Heilsuklasanum.

„Mínir skjólstæðingar greiða aukagjöld, um þriðjung af kostnaði við hverja komu, það er ekkert leyndarmál og það gæti SÍ vitað ef þeir höfnuðu því ekki að taka á móti reikningum sem innihalda raunkostnað við heimsóknina til mín. Sjúklingarnir greiða svo ég geti staðið undir launa- og rekstrarkostnaði við stofuna mína annars væri sjálfhætt. Hvert ættu sjúklingarnir þá að leita?“ spyr hún.

Anna var í viðamiklu viðtali við Læknablaðið í mars og sagði þar frá mikilli baráttu sinni við að fá mikilvæga læknisþjónustu niðurgreidda. Hún tjáir sig nú á Facebook vegna fréttar þar sem haft er eftir heilbrigðisráðherra að algerlega óásættanlegt sé að sumir sérfræðilæknar innheimti sérstakt gjald af þjónustu sinni við sjúklinga sem þeir einir standi undir. Þar er sagt frá því að á næstunni verði gefin út reglugerð um að læknum sem innheimti þetta gjald verði ekki endurgreiddur kostnaður sem annars heyri undir hlut sjúkratrygginga í kostnaði sjúklinga.

Reglugerðin hefur sætt gagnrýni. Læknafélagið leggst eindregið gegn því að heilbrigðisráðherra staðfesti drögin og hvetur heilbrigðisráðherra til að semja heldur við lækna. Viðskiptaráð Íslands gerir það einnig og vill sjá að samningunum sé náð á grundvelli tímabærra þarfa- og kostnaðargreininga. Án þess byggi áform ráðherra með reglusetningunni á veikum grunni. „[E]r með fyrirliggjandi reglugerðardrögum lagður grunnur að tvöföldu heilbrigðiskerfi,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs á frumvarpinu.

Samningar sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands hafa verið lausir frá árslokum 2018. Læknar hafa gagnrýnt að síðan þá hafi hann ekki verið endurmetinn með nýja tækni og meðferðir í huga.

„Ég hef ítrekað reynt að fá nýja greiðsluliði inn í gjaldskrá SÍ sem endurspegla þjónustuna sem ég veiti en ekki haft erindi sem erfiði, þess vegna borga sjúklingarnir því miður,“ segir Anna á Facebook. Hún vísar til tímans þegar hún barðist fyrir því að fá að starfa innan rammasamningsins eftir að hún kom heim úr sérnámi í Bandaríkjunum og hafði betur fyrir dómi.

„Þetta væri svo sem ekki í fyrsta skipti sem mínir skjólstæðingar væru sviptir lögbundnum tryggingarétti því fyrstu tvo mánuði mína á stofu hér árið 2018 greiddu allir sjúklingarnir fullt úr eigin vasa, án aðkomu sjúkratrygginga. Og getiði hvað, það var fullbókað allan tímann! Svona verður tvöfalt heilbrigðiskerfi til og það er ekki á mína ábyrgð,“ bendir hún á rétt eins og Viðskiptaráð.

„Svandísi er velkomið að heimsækja mig á stofuna mína í Heilsuklasanum, kynna sér rekstur minn og e.t.v. ræða við sjúklingana sem almennt eru mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá,“ segir hún að lokum.

Í frétt Vísis segir að umsóknarferli um nýja reglugerð heilbrigðisráðherra um endurgreiðslur til lækna sé nýliðið. Heilbrigðisráðherra gefi því líklega út nýja reglugerð á næstunni.

Mynd/Læknablaðið