Heilbrigðiskerfi að hætti Marx og félaga

Flestir landsmenn eru sem betur fer sammála um að á Íslandi eigi ríkið að tryggja öllum góða heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið er langdýrasti liðurinn í rekstri ríkisins. Eigi markmiðið um góða þjónustu fyrir alla að nást skiptir öllu máli hvernig staðið er að rekstri kerfisins.

Það er því mikið áhyggjuefni að nú skuli hafa verið tekin upp stefna sem er ekki hægt að kalla annað en harðlínu sósíalisma í heilbrigðismálum. Teknar eru ákvarðanir sem augljóslega eru óskynsamlegar og jafnt og þétt horfið frá því sem best hefur reynst á Íslandi og erlendis. Allt í nafni hugmyndafræði sem hvergi hefur gengið upp. Jafnvel góðgerðarsamtök sem byggja að miklu leyti á sjálfboðastarfi fá að finna fyrir hinni marxísku endurskipulagningu.

Á meðan verið er að koma á sósíalíska kerfinu sendir ríkið sjúklinga í aðgerðir á einkareknum stofnunum í Danmörku og Svíþjóð og greiðir fyrir þrefalt það sem myndi kosta að framkvæma aðgerðirnar á Íslandi. Í sumum tilvikum fylgja jafnvel íslenskir læknar sjúklingunum til útlanda og framkvæma aðgerðina þar. Viðhorf þeirra sem ráða för virðist vera að um sé að ræða starfsemi sem teljist á einhvern hátt óhrein og megi því ekki fara fram innan landamæranna en hægt sé að líta fram hjá því og borga aukalega fyrir ef „glæpurinn” er framinn utan landsteinanna.

sjá grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á visir.is