Heilsugæslur berjist um verktakalækna

„Staða heilsugæslu á landsbyggðinni er orðin alvarleg, nýliðun í hópi lækna er lítil og það þarf að skoða hvernig hægt er að snúa því við. Núna höldum við í rauninni uppi lágmarksþjónustu sums staðar að umtalsverðu leyti með aðstoð verktakalækna. Sem er frábært en á sama tíma mjög erfitt því verktakalæknar eiga ekki að vera til samkvæmt ráðuneytinu,“ segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Pétur hélt erindi á árlegum fræðsludegi Félags íslenskra heimilislækna en hann hófst á málþingi um stöðu læknisþjónustu í heilsugæslu á landsbyggðinni. Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur gengið erfiðlega að fastráða lækna og hefur þurft að kaupa þjónustu af aðkomnum verktakalæknum. „Við njótum trygglyndis ákveðinna lækna sem koma endurtekið í fríum sínum. En á sama tíma eru engar leikreglur um það hvernig eigi að semja um verktöku lækna. Engar leiðbeiningar um slíkt er að fá hjá hinu háa ráðuneyti. Í raunveruleikanum þýðir þetta að stofnanir sem eru reknar af opinberu fé berjast á opnum markaði um þá lækna sem í boði eru. Umtalsverður munur er á hæsta og lægsta boði. Þetta er eitthvað sem þarf að tala um,“ segir Pétur.

 

Sjá frétt á ruv.is