Helgi Kjartan Sigurðsson skurðlæknir lést á gjörgæsludeild Landspítalans 6. ágúst sl., 55 ára að aldri. Eftirlifandi eiginkona Helga er Birna Björk Þorbergsdóttir. Þau áttu þrjú börn.
Helgi Kjartan fæddist í Reykjavík 8. október 1967, sonur hjónanna Sigurðar G. Sigurðssonar og Guðríðar Helgadóttur. Sigurður lifir son sinn.
Helgi Kjartan varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1987 og lauk prófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1994. Hann fór til Noregs í sérfræðinám í skurðlækningum við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger, fékk sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum árið 2001 og í kviðarholsskurðlækningum árið 2003. Hann lauk doktorsprófi í krabbameinsskurðlækningum frá Háskólanum í Bergen í Noregi árið 2008.
Helgi Kjartan starfaði sem deildarlæknir á svæfingar- og skurðdeild Borgarspítalans árin 1995-1996, en 1996-1997 vann hann jafnframt sem læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Hann starfaði sem sérfræðingur í kviðarholsskurðlækningum á Landspítala frá 2007 til dánardags. Hann var einn stofnenda Miðstöðvar meltingalækninga árið 2013 á Læknastöðinni í Glæsibæ og starfaði þar sem sérfræðingur í skurðlækningum til dánardags. Frá árinu 2022 starfaði hann einnig á Læknastöð Akureyrar. Hann var aðjunkt við Læknadeild Háskóla Íslands um árabil og var virkur í kennslu á Landspítala.
Helgi Kjartan var virkur í félagsmálum lækna, sat í samninganefnd ungra lækna 1996-1997, var formaður Skurðlæknafélags Íslands 2012-2016 og var gjaldkeri sama félags 2016-2018.
Helgi Kjartan var farsæll í starfi og naut virðingar samstarfsmanna sinna og sjúklinga.
Læknafélag Íslands sendir eiginkonu Helga Kjartans, börnum, tengdabörnum, föður og öðrum ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur. Helga Kjartans er minnst með miklu þakklæti fyrir störf hans sem læknis og félagsstörf hans í þágu lækna.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga