Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að sýklalyfjaónæmi hafi verið talsvert minna vandamál á Íslendi en í nálægum löndum en mikilvægt sé að stemma stigu við frekari útbreiðslu, en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni, Sóttvarnarstofnun Evrópusambandsins og Matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins er útbreiðsla sýklalyfjaónæmis ein stærsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum.
„Með þessari undirritun liggur fyrir opinber stefna íslenskra stjórnvalda í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Það mikilvæga skref markar í mínum huga kaflaskil í þeirri baráttu og ber að þakka fyrir það góða starf sem unnið hefur verið á síðustu árum, m.a. starfshóp sem skilaði tillögum sínum árið 2017 og opinber stefna Íslands byggir nú á,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Starfshópur heilbrigðisráðherra skilaði tíu tillögum að aðgerðum sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis árið 2017 og líta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra svo á að tillögurnar marki opinbera stefnu stjórnvalda í málaflokknum.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga