Í tilefni kvöldfrétta Stöðvar 2 í gær, 6. febrúar, um lyfjaávísanir lækna árið 2018 vill Læknafélag Íslands taka fram að það styður reglubundið eftirlit Embættis landslæknis með sjálfsávísunum lækna sem og lyfjaávísunum þeirra til sjúklinga.
Fram kom í fréttinni og hefur verið tekið upp af öðrum fréttamiðlum að þriðjungur íslenskra lækna eða um 500 af 1500 læknum hafði á árinu 2018 ávísað lyfjum á eigin kennitölu, í flestum tilfellum í litlu magni. LÍ telur að á þessu séu í langflestum tilfellum eðlilegar skýringar s.s. starfstengdar lyfjaútskriftir lækna sem annast vakta- og vitjanaþjónustu eða þurfa að bregðast við í bráðatilfellum utan heilbrigðisstofnana, en í einhverjum tilfellum lyf til eigin nota. LÍ telur að þær tölur sem fram komu í fréttinni bendi almennt til ábyrgra lyfjaávísana íslenskra lækna og þykir leitt ef framsetning fréttarinnar hefur valdið misskilningi á eðli slíkra starfstengdra útskrifta á lyfjum.
Læknar eins og aðrir geta orðið áfengis- og fíknisjúkdómi að bráð. Ekkert bendir til að slíkt sé algengara á meðal íslenskra lækna en annarra starfstétta. Í þeim tilfellum sem læknar leita sér aðstoðar eða fara í meðferð vegna slíkra vandamála kemur fyrir að þeir leggi tímabundið inn leyfi sitt til að ávísa ávanabindandi lyfjum og í undantekningatilfellum að veikindi þeirra leiði til sviptingar slíkra réttinda, tímabundið eða til lengri tíma. LÍ veitir læknum við slíkar aðstæður ráðgjöf og styður í gegnum það meðferðar- og bataferli sem tekur við til að öðlast aftur fyrri starfsréttindi ef þess er óskað.
Í nýlegri könnun LÍ á heilsu- og starfsaðstæðum lækna kom fram að einungis helmingur lækna hefur skráðan heimilislækni og að hátt hlutfall lækna er undir miklu álagi í daglegu starfi. LÍ telur mikilvægt að á þessu verði breyting og hefur kallað eftir samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og Embætti landlæknis til að bregðast við þeirri stöðu.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga