Sagt er frá uppgötvun á lyfi sem notað er til að meðhöndla arfgenga íslenska heilablæðingu í grein íslenskra og bandarískra vísindamanna í tímaritinu Nature Communications. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hákon Hákonarson, forstjóri erfðarannsóknamiðstöðvar barnaháskólasjúkrahússins í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, leiðir hópinn sem fer fyrir greininni. Í henni kemur meðal annars fram að lyfið geti haft jákvæð áhrif á arfgengt minnisleysi.
„Rannsókn okkar leiddi í ljós að afoxunarlyfið N-acetyl cystein (NAC) getur komið í veg fyrir að mýlildi (amyloid) fléttist saman í stærri einingar og falli út í æðar, heilavef og önnur líffæri og valdið miklu líkamstjóni. Skaðinn er oft fólginn í því að þessar próteinútfellingar loka æðum í heilanum sem getur orsakað heiladrep en þær geta líka veikt æðavegginn í heilaæðum og leitt til heilablæðingar. Þá er ljóst að þessar útfellingar geta einnig orsakað minnisleysi hliðstætt og sést í alzheimersjúkdómnum, en hjá mun yngra fólki sem oft hefur ekki sögu um klínískar heilablæðingar,“ segir Hákon í Morgunblaðinu í dag.
Sjáðu vísindagreinina í Nature Communications hér.
Sjáðu frétt mbl.is hér.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast blaðið hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga