Ólafur Ó. Guðmundsson, barna- og unglingageðlæknir og stjórnarmaður í Læknafélagi Íslands, telur að stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum kunni að leiða til myndunar tvöfalds kostnaðarkerfis sjúklinga þar sem einungis hinir efnameiri hafi ráð á því að leita til sérfræðilækna.
„Afleiðing pólitísks ásetnings ráðuneytisins getur orðið sú að læknisþjónusta verði annars vegar ríkisrekin með óhjákvæmilegum biðlistum og hins vegar einkarekin fyrir þá sem efni á henni hafa,“ skrifar Ólafur í pistli sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. „Það yrði kaldhæðni örlaganna ef arfleið núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga en sú hætta er raunverulega fyrir hendi fari fram sem horfir.“
Eins og Stundin hefur fjallað ítarlega um jókst hlutdeild sérfræðilækna og einkastofurekstrar í heildarútgjöldum hins opinbera umtalsvert undanfarna tvo áratugi, eða um 30 prósent. Frá 2007 til 2016 hækkuðu fjárframlög hins opinbera til sérgreinalækna um tæp 42 prósent meðan framlög til Landspítalans drógust saman um 7 prósent.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga