Kári og Alma korteri fyrir kosningar - RÚV

„Við verðum að girða okkur í brók og fjármagna þetta heilbrigðiskerfi þannig að það virki vel,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í þættinum Korter í kosningar á Rás 2 í gær sunnudag. Þátturinn var tileinkaður heilbrigðiskerfinu að loknu COVID.

Kári hældi þar ráðherra fyrir Heilbrigðisstefnuna til 2030. „Að vísu var um að ræða mjög víðan ramma. Það á eftir að útfæra þetta en þetta var nauðsynlegt og mér finnst að taka þurfi þessa hugsun sem hún lagði fram og útfæra hana. Skipuleggja eitt heildarheilbrigðiskerfi þar sem Landspítali verður miðtaugakerfi heilbrigðisþjónustunnar,“ sagði Kári. Landspítali eigi að leggja fram gæðaeftirlit með annarri heilbrigðisþjónustu í landinu.

Kári sagði gjörsamlega út í hött að menn einblíni svo á þann vilja sinn að heilbrigðiskerfið sé ríkisrekið að það meini fólki að geta sótt sér heilbrigðisþjónustu annars staðar. Einkaframtakið verði að sinna þeirri þjónustu sem ríkið ekki sinni. Hann vísaði í liðskiptaaðgerðir og Klíníkina, þar sem framtak ríkisins hafi ekki verið nægt til að vinna á biðlistum. Þeir haldi áfram að lengjast: „Það er gjörsamlega óásættanleg.“

Alma Möller landlæknir var einnig gestur þáttarins. Hún sagði að draga þyrfti lærdóm af faraldrinum. Skoða þyrfti brotalamir. Veikleikarnir hafi verið vel þekktir. Ákveðna færni og þekkingu vanti í ákveðnar sérgreinar og mönnun slök til lengri tíma.

„Það vantar hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna í ákveðnum sérgreinum,“ sagði Alma. Hún benti á að landlæknisembættið hefði gert úttekt á sýkingavörnum bráðamóttökunnar örfáum mánuðum fyrir heimsfaraldurinn.

„Þar er ekki góð aðstaða til að einangra,“ sagði hún og benti einnig á Landakot og andlátin sem urði þar þar sem húsnæðið væri ekki gott. Hún nefndi einnig vonda stöðu liðskiptaaðgerða.

Einnig var rætt við Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Guðjón Hauksson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Mynd/Skjáskot/RÚV - Korter í kosningar

 

  • Hlustaðu á þáttinn hér