„Okkur er farið að lengja eftir svörum,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, við Fréttablaðið um þá staðreynd að ekki liggur fyrir hvernig ráðstafa eigi milljarði króna til heilbrigðisstarfsfólks vegna álags í kórónuveirufaraldrinum.
Sagt er frá því að rúmar sex vikur eru síðan Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gaf út að milljarðurinn færi í sérstakar álagsgreiðslur. Hún sagði þá að þær yrðu í formi eingreiðslna til starfsfólks í framlínunni á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í heilsugæslunni. Útfærslan yrði á hendi forstöðumanna heilbrigðisstofnana.
Fréttablaðið segir að engar upplýsingar sé að fá frá Landspítalanum aðrar en þær að málið sé í vinnslu.
Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrum yfirlæknir á COVID-19 göngudeild Landspítalans segir á Facebook-síðu sinni þann 2. júní að hann hafi fengið fjölda fyrirspurna frá starfsmönnum í COVID framlínunni um hvort að ekki eigi að fara að greiða út þennan milljarð sem lofaður var?
„Svona áður en næsta hrina fer í gang? Þekkir þú stöðu þessa máls, Svandís Svavarsdóttir?“ spyr hann heilbrigðisráðherra án svara.
Reynir segir mikilvægt að greiðslurnar nái ekki síður til starfsmanna í einkarekna kerfinu. Hann bendir á að hægt sé að horfa til Svíþjóðar, þar sem lög geri ráð fyrir sérstöku álagi á laun heilbrigðisstarfsmanna þegar neyðarástand ríki.
„Þar voru 120 prósent álagsgreiðslur ofan á laun þeirra, þannig að þetta voru rúmlega tvöföld laun sem fólk fékk á þessum tíma.“
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga